Fótbolti

Gamla landsliðið hans Sigga Ragga sett í sóttkví

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson á tíma sínum sem landsliðsþjálfari Kína.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson á tíma sínum sem landsliðsþjálfari Kína. Getty/Francois Nel

Kvennalandslið Kína í fótbolta hefur verið sett í sóttkví á hótel sínu í Ástralíu vegna ótta við útbreiðslu kórónaveirunnar.

Landsliðkonurnar eru staddar í Brisbane í Queensland fylki í Ástralíu og eru að undirbúa sig um forkeppni Ólympíuleikanna.

Kínverska landsliðið átti upphaflega að vera á heimavelli í forkeppninni en hún var færð frá Kína til Sydney vegna ótta við útbreiðslu kórónaveirunnar.



Það fóru þó ekki allir leikmenn kínverska liðsins suður til Ástralíu því fjórar urðu eftir heima og munu ekki spila þessa leiki eftir að hafa verið settar í ferðabann í heimalandi sínu. Þær sem fóru ekki með liðinu eru þær Wang Shuang, Yao Wei, Lyu Yueyun og Li Mengwen.

Mótherjar Kína í forkeppninni eru Ástralíu, Taívan og Tæland.

Kínverska liðið átti að leik sinn fyrsta leik á móti Tælandi 3. febrúar næstkomandi en nú hefur verið ákeðið að þær mega ekki fara út af hótelherbergjum sínum fyrr en 5. febrúar. Þá verða liðnir fjórtán dagar síðan liðið fór frá Wuhan.

Það er því ljóst að liðið spilar ekki leikinn sem var settur á 3. febrúar.

Leikmenn kínverska landsliðinu eru samt allar við hestaheilsu en læknaliðið mun fylgjast vel með þeim ef þær sýna einhver merki um að vera að veikjast.

Gestir hótelsins eða íbúar nálægt hótelinu eru sagðir vera í engri hættu vegna þessa.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson var þjálfari kínverska landsliðsins frá 2017 til 2018 en núverandi þjálfari liðsins er eftirmaður hans Jia Xiuquan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×