Sport

Elsta gildandi Íslandsmetið er sextíu ára í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vilhjálmur Einarsson hefur oftast orðið íþróttamaður ársins, eða fimm sinnum.
Vilhjálmur Einarsson hefur oftast orðið íþróttamaður ársins, eða fimm sinnum.

Í dag eru liðin sextíu ár frá Íslandsmeti Vilhjálms Einarssonar í þrístökki. Metið setti hann á Laugardalsvellinum, 7. ágúst árið 1960. Frjálsíþróttasambandið segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Vilhjálmur Einarsson var fyrstur til að vera kosinn Íþróttamaður ársins árið 1956 og hlaut þá útnefningu alls fimm sinnum eða oftar en nokkur annar. Hann var fyrsti verðlaunahafi Íslendinga á Ólympíuleikunum.

Vilhjálmur Einarsson stökk þarna 16,70 metra í þrístökki og á þeim tíma var það næst lengsta stökkið í heiminum. Metið stendur enn þann dag í dag og er elsta gildandi Íslandsmetið.

Ekki hafa margir Íslendingar komist nálægt meti Vilhjálms síðan þá og er hann sem dæmi eini Íslendingurinn sem stokkið hefur yfir sextán metra.

Fyrra Íslandsmetið sitt hafði Vilhjálmur sett á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956. Þá stökk hann 16,26 metra sem var Ólympíumet og vann hann til silfurverðlauna.

Vilhjálmur varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum og er sá eini sem unnið hefur silfur á Ólympíuleikum í einstaklingskeppni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.