Erlent

Áströlsku gróður­eldarnir taldir hafa skaðað þrjá milljarða dýra

Kjartan Kjartansson skrifar
Vallabíar eru á meðal þeirra dýrategunda sem urðu einna verst úti í gróðureldunum miklu í Ástralíu síðasta suðurhvelssumar.
Vallabíar eru á meðal þeirra dýrategunda sem urðu einna verst úti í gróðureldunum miklu í Ástralíu síðasta suðurhvelssumar. Vísir/EPA

Tæplega þrír milljarðar dýra drápust eða þurftu að yfirgefa búsvæði sín vegna gróðureldanna miklu sem geisuðu í Ástralíu síðasta sumar. Alþjóðanáttúrusjóðurinn (WWF) segja eldana verstu hamfarir fyrir dýralíf á síðari tímum.

Að minnsta kosti 33 manns fórust í eldunum í Ástralíu. Þeir höfðu enn verri afleiðingar fyrir lífríkið þar sem ógrynni spendýra, skriðdýra, fugla og froska drápust eða töpuðu búsvæðum sínum vegna eyðileggingarinnar. Áætlað hefur verið að 1,25 milljarða dýra hafi drepist í Nýja Suður-Wales og Viktoríu einum saman.

Í nýju mati ástralskra háskóla á umfangi og áhrifum eldanna telja vísindamenn að um 11,46 milljónir hektarar lands, svæði á stærð við England, hafi brunnið frá september í fyrra þar til í febrúar á þessu ári. Áætlaður fjöldi dýra sem drápust eða urðu fyrir skaða byggist á stofnstærð og þéttleika dýrategunda fyrir hamfarirnar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sumar dýrategundir, hryggleysingjar, fiskar og skjaldbökur, eru ekki inn í matinu vegna ófullnægjandi gagna um þær.

Áströlsk stjórnvöld sögðu 113 dýrategundir þurfa á aðstoð að halda eftir eldana í febrúar. Flestar tegundirnar höfðu tapað tæpum þriðjungi búsvæða sinna í eldunum í skógum og gresjum á sunnan- og austanverðri Ástralíu. Kóalabirnir, vallabíar og sumar fugla-, fisk- og froskategundir þurftu sérstaka aðstoð.

Opinber rannsókn stendur yfir á eldunum og er niðurstaðna hennar að vænta í október. Vísindamenn hafa sagt að loftslagsbreytingar af völdum manna hafi leitt til fordæmalausri tíðni og ákefð gróðureldanna. Talið er reykur frá eldunum hafi átt þátt í dauða á fimmta hundrað manna til viðbótar við þá sem fórust í bálinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×