Sport

Nýliðinn Van den Bergh lagði reynsluboltann Gary Anderson í úrslitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Van den Bergh kom, sá og sigraði í Milton Keynes um helgina.
Van den Bergh kom, sá og sigraði í Milton Keynes um helgina. Alex Burstow/Getty Images

Belginn Dimitri Van den Bergh kom öllum á óvart og lagði hinn reynslumikla Gary Anderson á World Matchplay-mótinu í pílu. Var þetta í fyrsta skipti sem Van den Bergh keppir á mótinu sem fór í Milton Keynes í Englandi að þessu sinni.

Úrslitaleikurinn var frábær skemmtun en Anderson stefndi á sinn annan titil á þremur árum. Honum varð ekki að ósk sinni þar sem Van den Bergh vann ótrúlegan sigur. Vinna þurfti 18 leiki til að vinna úrslitaleikinn.

Framan af var keppnin jöfn og var Van den Bergh 10-8 yfir áður en hann vann þrjá leiki í röð og lagði þar með grunninn að óvæntum sigri sínum. Átti hann tvö útskot sem einfaldlega slógu Anderson út af laginu.

Fór það svo að Van den Bergh vann 18-10 og lyfti Phil Taylor-bikarnum að lokum. Er hann fyrsti Belginn til að vinna mótið sem hefur farið fram frá 1994. Þá lyftir hann sér upp í 16. sæti heimslistans en fjórir efstu á listanum voru allir dottnir út þegar komið var í undanúrslit mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×