Innlent

Segir vatnið eina gullið sem kemur úr Skaftáreldahrauni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Anna Magdalena Buda er rekstrarstjóri Klausturbleikju á Kirkjubæjarklaustri. Hér er hún við eldisstöðina á Teygingalæk í jaðri Brunahrauns, sem sést fyrir aftan.
Anna Magdalena Buda er rekstrarstjóri Klausturbleikju á Kirkjubæjarklaustri. Hér er hún við eldisstöðina á Teygingalæk í jaðri Brunahrauns, sem sést fyrir aftan. Stöð 2/Einar Árnason.

Kalt vatn sem sprettur undan Skaftáreldahrauni er grunnur tveggja eldisstöðva í Skaftárhreppi sem báðar sérhæfa sig í bleikjueldi. Fiskeldisfræðingur, sem stýrir öðru fyrirtækinu, segir vatnið í raun eina gullið í Eldhrauni. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Klausturbleikjan er eitt þekktasta vörumerki Kirkjubæjarklausturs en fyrirtækið á 25 ára sögu. Það sem kannski færri vita er að þessi frægi matfiskur á í raun ungu hrauni uppeldi sitt að þakka.

Eldisstöð Klausturbleikjunnar er á jörðinni Teygingalæk á Brunasandi. Pólsk hjón, þau Anna Magdalena Buda og Wojciech Jaroslaw Buda, eru meðal sex starfsmanna og Anna stýrir rekstrinum.

Wojciech Jaroslaw Buda sinnir eldiskerjum. Hann hóf störf hjá Klausturbleikju fyrir tólf árum þegar hann flutti frá Póllandi til Kirkjubæjarklausturs. Fyrir aftan má sjá hraunið sem rann í Skaftáreldum árið 1783.Stöð 2/Einar Árnason.

„Þetta er Klausturbleikjustöð, fiskistöð,“ segir Anna og dásamar afurðina: „Þetta er mjög góð bleikja, íslenskt sælgæti hundrað prósent,“ segir hún.

Eldiskerin eru í jaðri Brunahrauns, eystri álmu hraunsins sem rann í Skaftáreldum 1783. Anna segir vatnið undan hrauninu vera lykilinn í eldi bleikjunnar en hitastig þess er stöðugt. 

„Þetta er mjög kalt vatn,“ segir hún og nefnir einnig að fóðrið sé gott.

Drífa Bjarnadóttir fiskeldisfræðingur og framkvæmdastjóri Lindarfisks.Stöð 2/Einar Árnason.

Í landi Botna í Eldhrauni, vestri álmu Skaftáreldahrauns, hóf eldisstöðin Lindarfiskur að slátra fyrir fimm árum. Framkvæmdastjórinn og fiskeldisfræðingurinn Drífa Bjarnadóttir leynir því ekki að þau byggi á frægð Klausturbleikju.

„Þetta er bleikja af sama stofni. Við tökum hrogn frá sama stað og Klausturbleikjan. Þetta er alið í samskonar vatni. Þetta er vatn úr sama jöklinum. Og á svipuðu fóðri og svo framvegis.“

Frá Botnum í Meðallandi. Hér sprettur Eldvatn undan Skaftáreldahrauni.Stöð 2/Einar Árnason.

-Og þetta er vatn sem sprettur undan Eldhrauni?

„Ó, já. Þetta er í rauninni það eina sem er gull í þessu hrauni, - er vatnið. Vegna þess að hraunið er svo rosalega góð sía fyrir vatnið. Það kemur alveg tandurhreint,“ segir Drífa.

Sex manns starfa hjá Lindarfiski en vinnslan er í Vík í Mýrdal. En er ekkert mál að selja bleikjuna?

„Það var ekkert mál. Svo kom covid og þá náttúrlega fóru allir túristarnir heim til sín. En það er aðeins að lagast. Þannig að við erum bjartsýn.“

Eldvatn í Meðallandi sprettur undan Eldhrauni í landi Botna. Fiskeldisstöðin er til hægri. Þarna er Eldvatn stíflað til að afla raforku í lítilli heimarafstöð.Stöð 2/Einar Árnason.

Já, veitingastaðir sem þjóna erlendum ferðamönnum hafa mest keypt bleikjuna.

„Við gerðum okkur ekki almennilega grein fyrir því hversu mikið við værum háð ferðamanninum fyrr en þetta dundi yfir,“ segir Drífa Bjarnadóttir, fiskeldisfræðingur og framkvæmdastjóri Lindarfisks.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×