Ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar hafna því að sannanir liggi fyrir um að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016 eða að hún hafi forðast að rannsaka slík afskipti. Þær ásakanir voru settar fram í skýrslu þingmannanefndar um áhrif Rússa í gær.
Hörð gagnrýni var sett fram á bresk stjórnvöld í skýrslu leyniþjónustu- og öryggisnefndar breska þingsins sem var birt í gær. Ríkisstjórnin hafi forðast það í lengstu lög að rannsaka hvort Rússar reyndu að hafa áhrif á tvær umdeildar þjóðaratkvæðagreiðslur, um útgönguna úr Evrópusambandinu annars vegar og sjálfstæði Skotlands hins vegar. Vísbendingar séu um slík afskipti í atkvæðagreiðslunni í Skotlandi en en hörð sönnunargögn skorti um Brexit.
Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, sagði í dag að engar sannanir væru fyrir því að Rússar hefðu haft afskipti af Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Það verða að vera einhver sönnunargögn fyrir því að það sé mál til staðar, sem er ekki,“ sagði Shapps sem hafnaði því ennfremur að breska leyniþjónustan hefði brugðist.
Í sama streng tók James Brokenshire, öryggismálaráðherra. Fullyrti hann að ríkisstjórnin hefði gripið til aðgerða til að búa sig frekar undir ógnir frá stjórnvöldum í Kreml.
„Við höfnum afdráttarlaust hugmyndum um að Bretlandi hafi gagnvert forðast að rannsaka Rússland,“ sagði Brokenshire í þingræðu í dag.
Rússnesk stjórnvöld hafna því að þau hafi reynt að hlutast til um þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi og fullyrða að þau skipti sér ekki af innanlandsstjórnmálum annarra ríkja. Bandaríska leyniþjónustan telur að rússnesk stjórnvöld hafi staðið fyrir umfangsmikilli áróðursherferð og tölvuinnbrotum til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar þar árið 2016 með það fyrir augum að hjálpa Donald Trump að ná kjöri.