Innlent

Nýjar reglur sóttvarnalæknis minnka álagið um hátt í 40%

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Baldur

Um fjörutíu prósent færri þurfa að fara í skimun á landamærunum með nýjum reglum sóttvarnalæknis. Frá og með deginum í dag bætist Danmörk Noregur, Finnland og Þýskaland á lista yfir svokölluð „örugg lönd“ en ferðamenn sem koma þaðan eru undanþegnir skimunum.

Vinnuálag heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir sýnatöku við landamærin hefur verið mikið og eykst í fjarveru Íslenskrar erfðagreiningar. Nokkur breyting þar á verður þó með nýjum reglum Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis.

„Það mun örugglega létta töluvert á sýnatökuálaginu. Við vitum náttúrulega ekki nákvæmlega hvað það er mikið en það gæti orðið kannski í kringum 40% eins og staðan er núna en svo kann það að breytast á næstu dögum og vikum.“

Sú þekking og reynsla sem teymi sóttvarnalæknis hefur öðlast með skimum á landamærunum frá 15. júní sýnir, að sögn Þórólfs, að áhættan við að hætta skimun farþega frá umræddum löndum sé í lágmarki.

„Við byggjum það á upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandins. Þeim er að takast mjög vel til og ný smit eru í lágmarki, og nánast á pari við okkur hér, þannig að ég held að við séum ekki að taka neina stóra áhættu með því“.

Reynslan sýni líka að mikil smithætta sé af Íslendingum vegna tengslanets og nándar. Svokölluð heimkomusmitgát sé því sennilega komin til að vera.

„Vegna þess að þeir hafa mikið tengslanet og umgangast mjög marga og geta þannig smitað mjög marga ef þeir eru smitandi þannig að við erum að beina sjónum okkar sérstaklega að þeim Íslendingum sem eru að koma frá áhættulöndum. Við viljum setja þá í skimun og þessa svokölluðu heimkomusmitgát.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×