Innlent

Svarti­dauði ekki dauður en lítið á­hyggju­efni

Sylvía Hall skrifar
Baktería sem nefnist Yersinia pestis veldur svartadauða.
Baktería sem nefnist Yersinia pestis veldur svartadauða. Vísir/Getty

Tilfelli af svartadauða sem greindist í borginni Bayannur í sjálfstjórnarhéraðinu Innri-Mongólíu er ekkert áhyggjuefni að mati Sigurðar Guðmundssonar smitsjúkdómalæknis. Nokkur hundruð tilfelli greinist á ári hverju, þó það sé ekki á Íslandi.

„Svarti dauði er alls ekkert dauður í samfélaginu, síður en svo, en mjög sjaldgæfur og við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur,“ sagði Sigurður í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Það sé því ekki mjög fréttnæmt að þetta tilfelli hafi komið upp.

Stjórnvöld í Kína hafa þó aukið varúðarráðstafanir vegna sjúkdómsins og hefur maðurinn verið settur í einangrun. Grunur er um annað smit á svæðinu en ekki er vitað hvernig maðurinn, sem starfar sem smali, smitaðist.

Sigurður fór stuttlega yfir sögu svartadauða hér á landi og lýsti sjúkdómnum. Um er að ræða bakteríu sem nefnist Yersinia pestis og veldur hún sjúkdómnum, sem er að mestu leyti bundinn við nagdýr.

Hann getur þó borist í menn með flóm nagdýra og valdið lungna- og kýlapest. Pestin getur svo borist milli manna með úðasmiti, sem hefur líklega verið tilfellið hér á landi að sögn Sigurðar enda engar rottur á Íslandi á þeim tíma.

„Þetta er svolítið interessant saga en ekki líklegt að hún endurtaki sig,“ sagði Sigurður og bætti við að svartidauði væri mun skæðari sjúkdómur en Covid-19. Í raun kæmist Covid-19 ekki með tærnar þar sem svartidauði hefði hælana.

Hér að neðan má hlusta á viðtal við Sigurð í heild sinni þar sem hann ræðir meðal annars kórónuveirufaraldurinn, skimun á landamærunum og svartadauða. Umræða um svartadauða hefst á sjöundu mínútu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.