Íslenski boltinn

Pétur um höfuð­höggið: „Þakk­látur fyrir að ekki fór verr“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pétur Viðarsson hafði nýverið tekið skóna af hillunni.
Pétur Viðarsson hafði nýverið tekið skóna af hillunni. vísir/bára

Pétur Viðarsson, varnarmaður FH, vonast til þess að vera klár í slaginn eftir tíu daga til tvær vikur eftir höfuðhöggið sem hann fékk í leik Víkings og FH í Pepsi Max-deild karla í gær.

Pétur lék í 36 mínútur þangað til að hann og Atli Hrafn Andrason skullu saman er Pétur tæklaði boltann út af en strax sást að Pétur væri illa haldinn.

Hann var þó allur hinn brattasti í morgun.

„Ég er allt í lagi. Ég er ekki hundrað prósent en ég er samt sem áður ekki með brjálaðan hausverk svo staðan er ágæt,“ sagði Pétur í samtali við Vísi í dag.

„Ég held að þetta hafi verið vægur heilahristingur. Mér varð smá óglatt. Ég talaði við Helga í morgun [sjúkraþjálfara FH] og var að spyrja hann um hitt og þetta og ég ætlaði mér víst aftur inn á í gær,“ segir Pétur sem segir að hann sem betur fer hafi ekki farið aftur inn á.

Klippa: Höfuðhögg Péturs

Hann segir að hann hafi haldið heim á leið eftir leikinn í gær en hafi svo komið við á spítala og hitt þar hjúkrunarfræðing.

„Ég fór fyrst heim og svo upp á spítala og hitti hjúkrunarfræðing. Ég var ekki ælandi og ekki að sjá tvöfalt svo þá er það bara besta í stöðunni að hvíla sig. Ég fór bara heim og svaf og er svo rólegur næstu daga.“

„Mér skilst að maður eigi að taka nokkra daga í rólegheitum. Svo byrjar maður að skokka og ef það er í lagi þá byrjar maður að sparka og fara í „kontakt“. Eins og ég skil þetta eru þetta tíu dagar vonandi, eða tvær vikur.“

Pétur hafði nýverið tekið skóna af hillunni og ætlaði að hjálpa FH-liðinu í sumar en náði einungis 36 mínútum í fyrsta leik sínum í sumar.

„Ég var búinn að spila í rúmlega þrjátíu mínútur þannig að þetta var rosa leiðinlegt. Það er þó meira í þessu en bara fótboltinn. Eftir að hafa séð þetta aftur þá er ég þakklátur að ekki hafi farið verr. Við vorum báðir á fullri ferð og ef ég er góður eftir í tíu daga, tvær vikur. Þá er ég sáttur að ekki hafi farið verr.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×