Erlent

Námu­maður í Tansaníu milljóna­mæringur yfir nóttu

Atli Ísleifsson skrifar
Saniniu Laizer með steinana.
Saniniu Laizer með steinana. Ráðuneyti námavinnslumála í Tansaníu

Námumaður í Tansaníu er orðinn milljónamæringur eftir að hafa selt tvo stóra tansanít-steina, en aldrei hafa svo stórir steinar fundist í landinu.

BBC segir frá því að Saniniu Laizer hafi hagnast um 3,4 milljónir dala, um 480 milljónir íslenskra króna, eftir að hafa selt steinana í hendur námavinnsluráðuneytis landsins. Steinarnir tveir vógu samtals um fimmtán kíló.

Laizer, sem á fjórar eiginkonur og er faðir rúmlega þrjátíu barna, segist ætla halda mikla veislu til að fagna sölunni á steinunum. Þá segist hann ætla að reisa verslunarmiðstöð og skóla nærri heimili sínu. Hann segist þó ekki ætla að breyta lífsháttum sínum og að áfram muni hann áfram hirða kýr sínar sem telja um tvö þúsund.

Tansanít finnst einungis í norðurhluta Tansaníu og er notaður við framleiðslu á skrautmunum. Um um að ræða einn sjaldgæfasta eðalstein á jörðu og telja jarðfræðingar að birgðirnar kunni að verða uppurnar á næstu tuttugu árum. Steinninn finnst í röð blæja, þar á meðal grænum, rauðum, fjólubláum og bláum.

Laizer fann steinana, sem eru 9,2 kíló annars vegar og 5,8 kíló hins vegar, í síðustu viku en seldi þá svo í Manyara-héraði í gær. Stærsti tansanít steinninn sem áður hafði fundist vóg 3,3 kíló.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×