Innlent

Önnur lönd fylgjast grannt með þróun mála á Íslandi þegar landið verður opnað

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir á von á að um 600 ferðamenn komi til landsins á mánudag. Fljótlega ætti að koma í ljós hvort ferðamenn beri veiruna með sér hingað til landsins. Þetta sagði Þórólfur Guðnason í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Von er á átta flugvélum til Keflavíkur á morgun þegar nýjar sóttvarnareglur um ferðamenn taka gildi. Sóttvarnalæknir á von á að með þessum sjö vélum komi um 600 manns til landsins. Aðal álagspunkturinn sé afkastageta í greiningu á sýnum.

„Það ver verið að vinna í því að auka afkastagetuna á veirufræðideild Landspítalans, bæði með tæknibúnaði, aðstöðu og mannafla en það tekur einhvern tíma. Íslensk erfðagreining er með hámarksgetu eins og staðan er núna í kringum 2.000 sýni á dag,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir.

Fljótlega komi í ljós hvort veiran berist með ferðamönnum hingað til lands.

„Væntanlega munum við fá mikla reynslu og upplýsingar og til þess er leikurinn gerður, að við getum svarað þeirri spurningu hvort ferðamenn muni bera veiruna með sér hingað til lands. Við erum að reyna að gera allt sem hægt er til að reyna að komast að því. Væntanlega þegar fram líða stundir þá getum við breytt áherslum. Þegar við fáum vitneskju og upplýsingar þá getum við breytt áherslum og kannski hætt að skima vélar frá ákveðnum löndum og snúið okkur meira að öðrum löndum,“ sagði Þórólfur.

Berist mörg smit með ferðamönnum þurfi að herða reglur á ný

Þáttastjórnandinn Kristján Kristjánsson spyr hvar mörkin liggja. Hve margir megi smitaðir vera í einni vél áður en við förum að endurmeta stöðuna.

„Það eru engin ákveðin mörk í því. Við förum inn í þetta verkefni með opnum huga. Fyrstu tvær vikurnar munu gefa okkur mjög góðar vísbendingar. Við þurfum þá að setjast niður og skoða málin. Ef við fáum gríðarlega mikið smit inn þá finnst mér að við þurfum að herða reglur aftur,“ sagði Þórólfur.

Hann segir opnun landamæra rétt skref á réttum tíma.

„Ég held að eftir einhverja mánuði þá stöndum við í nákvæmlega sömu sporum varðandi það hvernig opnun landsins skuli háttað því veiran verður ekkert farin úr heiminum þá. Ég held að það sé gott að gera þetta núna á meðan straumurinn er ekki mikill. Á meðan við erum að fá vitneskju og upplýsingar sem hægt er að byggja á, annars rennum við bara blint í sjóinn,“ sagði Þórólfur.

Skimunarbásarnir á Keflavíkurflugvelli. Landið verður opnað á morgun.Vísir/Einar

Önnur lönd fylgjast grannt með þróun mála á Íslandi

Ómögulegt að segja til um hve lengi skimun á Keflavíkurflugvelli vari. Hann bendir á að önnur lönd fylgist grannt með þróun mála hérlendis nú þegar landamærin opnast.

„Það er nýr leikur í gangi, reglurnar eru ekki ljósar það er ekki ljóst hverjir eru leikendur. Við erum að stíga eitt skref í einu. Í ljósi þess að við erum eyja úti í hafi og fámenn þjóð þá höfum við tækifæri til að gera þetta á okkar forsendum. Við vitum að það er enn fóður hér innanlands fyrir veirunni þannig við þurfum að gera þetta rólega og endurmeta stöðuna reglulega. Þetta verður lærdómsferli frá degi til dags,“ sagði Þórólfur.

Hann segir nauðsynlegt að afla sér þekkingar á veirunni til að vera undirbúin komi annar heimsfaraldur. Hérlendis hafi skapast mikil þekking sem nýtist heimsbyggðinni allri.

Kári Stefánsson íslensk erfðagreiningVísir/Vilhelm

„Ég vil bara benda á að mikil þekking hefur skapast hér innanlands á þessari veiru sem hefur haft mikla þýðingu fyrri heimsbyggðina. Þar hefur Íslensk erfðagreining farið fremst í flokki og þeir hafa komið með mjög áhugaverðar niðurstöður um þessa veiru. Til dæmis að börn smiti sáralítið. Þetta vissu menn ekki í byrjun og við héldum því fram hér að staðan væri þannig og það fengust skammir fyrir að halda því fram, en þetta er niðurstaða sem hvergi hefur verið sýnt fram á nema hér á Íslandi og Íslensk erfðagreining gerði það.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×