Sport

Einn reynslumesti leikmaður NFL-deildarinnar fær mikla gagnrýni fyrir ummæli sín

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Drew Brees hefur fengið mikla gagnrýni fyrir ummæli sín.
Drew Brees hefur fengið mikla gagnrýni fyrir ummæli sín. Jamie Squire/Getty Images

Hinn 41 árs gamli Drew Brees, leikmaður New Orleans Saints í NFL-deildinni, er einn reynslumesti leikmaður deildarinnar og einkar virtur meðal jafningja. Eða þangað til í nótt.

Í viðtali við Yahoo Finance lét Brees orð falla sem hann vill eflaust taka til baka núna. Var hann að ræða mótmælin og óeirðirnar í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á George Floyd.

„Ég mun aldrei vera sammála neinum sem vanvirðir bandaríska fánann,“ sagði Brees og hélt svo áfram.

„Þegar ég heyri þjóðsönginn þá hugsa ég um afa mína sem börðust í síðari heimsstyrjöldinni. Báðir hættu lífi sínu til að verja landið og reyna gera það, sem og heiminn, að betri stað.“

Þessi ummæli Brees hafa fallið í grýttan jarðveg og hefur hann fengið það óþvegið úr öllum áttum, til að mynda frá hinum ýmsu íþróttamönnum.

LeBron James, eitt stærsta nafn íþróttaheimsins og leikmaður Los Angeles Lakers var einna fyrstur til að tjá sig um ummæli Brees.

„WOW maður! Þetta getur ekki komið fólki á óvart lengur, er það nokkuð? Þú skilur bókstaflega ekk iaf hverju Kap (Colin Kaepernick) var að taka hné? Það hefur ekkert með vanvirðingu við fánann né hermennina okkar að gera. Tengdafaðir minn var einn af þeim og honum fannst friðsæm mótmæli Kap aldrei móðgandi,“ sagði LeBron mjög ósáttur.

Aaron Rodgers, leikstjórnandi Green Bay Packers, sendi Brees létta pillu.

„Þetta hefur aldrei snúist um fánann eða þjóðsönginn. Ekki þá. Ekki núna.“

Leikmenn NFL-deildarinnar látið Brees heyra það. Richard Sherman, varnarmaður San Francisco 49ers þar á meðal.

„Hann er alveg farinn. Ég get lofað þér því að það voru svartir menn sem börðust með afa þínum en þetta virðist ekki snúast um það. Þessi óþægilega samræða sem þú ert að reyna forðast með því að blanda hernum í umræðu um jafn- og óréttlæti er hluti af vandanum.“

Þá velti Kyle Kuzma, leikmaður Los Angeles Lakers, fyrir sér af hverju Brees „tók hné“ á sínum tíma ef hann telur það svona mikla vanvirðingu.

Samherji Brees hjá Saints lét sitt ekki eftir liggja. Michael Thomas er einn allra besti útherji NFL-deildarinnar og sá maður sem Brees sendir hvað mest á var ekki par sáttur með ummæli samherja síns.

„Hann veit ekki betur. Okkur er alveg sama ef þú ert ekki sammála okkur, hvað með það,“ sagði Thomas á Twitter.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×