Erlent

Segja of snemmt að draga úr félagsforðun í Bretlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar London njóta blíðunnar.
Íbúar London njóta blíðunnar. EPA/ANDY RAIN

Breskir vísindamenn sem ráðleggja yfirvöldum segja of snemmt að létta á félagsforðun í Bretlandi. Þeir segja dreifingu Covid-19 enn of mikla til að rétt sé að slaka á reglum og tilmælum og að undirbúningur varðandi rakningu smita sé ekki nógu langt kominn.

Meðlimir ríkisstjórnar Boris Johnson segjast vonast til þess að rakningarkerfi Bretlands muni duga til að stöðva dreifingu nýju kórónuveirunnar. Á mánudaginn verða skólar opnaðir á nýjan leik í Bretlandi og allt að sex manns gert kleift að koma saman.

Prófessorinn John Edmunds sagði það hafa verið pólitíska ákvörðun að draga úr félagsforðun og fella niður takmarkanir. Kollegi hans, Jeremy Farrar sagði að rakningarkerfi Bretlands þyrfti að vera í fullri notkun áður en umrædd skref verða tekin.

Aðrir vísindamenn sem sitja í ráðgjafaráðinu Sage, sem ráðleggur yfirvöldum, hafa slegið á svipaða strengi.

Í stuttu máli sagt, þá segja vísindamennirnir að smitum sé enn að fjölga í Bretlandi og að ríkið sé illa búið fyrir mikla aukningu.

Í frétt BBC segir að smitum sé enn að fjölga mun hraðar en spár gerðu ráð fyrir og þau gögn sem liggi fyrir gefi í skyn að smituðum fjölgi um átta þúsund á dag og það bara í Englandi. Heilt yfir hafa minnst 272. 607 smitast af veirunni í Bretlandi, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum.

Bretland er eitt þeirra landa sem hefur orðið hvað verst úti vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar. Miðlum ber þó ekki saman um hve margir hafa dáið þar. Johns Hopkins segir til að mynda að minnst 38.243 hafi dáið og er Bretland í öðru sæti á lista háskólans. Á undan Bretlandi eru Bandaríkin þar sem rúmlega hundrað þúsund manns hafa dáið og á eftir er Ítalía þar sem 33.229 hafa dáið.

Samkvæmt talningu Reuters fréttaveitunnar hafa þó minnst 48 þúsund Bretar dáið vegna faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×