Innlent

Snjó­koma í lok maí kom ekki á ó­vart þrátt fyrir blíð­viðri undan­farna daga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Það snjóaði mikið að Hólum í Hjaltadal í morgun.
Það snjóaði mikið að Hólum í Hjaltadal í morgun. Aðsend/Ágúst Kárason

„Það er mikill snjór í fjöllunum og það var allt hér snæviþakið um tíu,“ segir Ágúst Kárason, vélamaður í samtali við fréttastofu. Mikil snjókoma var að Hólum í Hjaltadal þegar starfsmenn Króksverks mættu til vinnu í malarnámu að Hólum.

Hríðin stóð yfir í um 2 klukkutíma áður en stytti upp og sólin byrjaði aftur að skína. Ágúst segist alvanur veðrinu, verandi uppalinn á Norðurlandi og hafandi unnið mikið á fjöllum. Snjókoman hafi þó komið á óvart þar sem veðrið á svæðinu hefur verið gott síðustu tvær vikur og segir Ágúst að næstu dagar lofi góðu, þá eigi að vera allt að 15 gráður á svæðinu.

„Við komum þarna yfir klukkan sjö og við erum þarna að vinna aðeins í kring um vélarnar um sjö og hálf átta og fáum okkur smá kaffi og erum bara að velta því fyrir okkur hvort við eigum að vera að starta þessu út af rigningunni. Svo hugsum við með okkur: við prófum, reynum á þetta. Heyrðu, þá fer bara að snjóa!“

Jörðin var snæviþakin í morgun.Aðsend/Ágúst Kárason

Hann segir vinnuna flækjast mikið þegar úrkoma er, enda er mikill leir í jarðveginum sem verið er að vinna sem getur stíflað vinnuvélarnar. „Það er töluverður leir í þessu efni sem við erum að vinna fyrir Vegagerðina, þetta er efni sem þeir nota í malarvegina. Þegar leirinn blotnar í rigningu á meðan við erum að mala hann þá sest leirinn inn í vélarnar og stíflar allt.“

Það kom þó ekki að sök en mennirnir vörðu deginum í að þrífa vélarnar eftir að stytti upp og í almennt viðhald á vinnuvélunum.

Þó er enn mikill snjór í fjöllunum og Tröllaskaginn snæviþakinn. „Menn eru enn þá að keyra á Reykjavík með vélsleðana sína og fara að leika sér þarna í Tröllaskaganum. Ég held það hafi bara verið um síðustu helgi hópur manna.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.