Sport

Liverpool getur nú unnið titilinn í næsta leik eftir frestunina í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool fagnar hér síðasta titli sínum þegar liðið varð heimsmeistari félagsliða.
Liverpool fagnar hér síðasta titli sínum þegar liðið varð heimsmeistari félagsliða. Getty/ David Ramos

Enska úrvalsdeildin tók í dag þá ákvörðun að fresta öllum leikjum í deildinni til og með 3. apríl til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Næstu leikir á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni fara því fram eftir þrjár vikur í fyrsta lagi.

Þetta kemur ekki mikið á óvart eftir að fréttist af því að leikmenn og starfsmenn félaganna hafa annað hvort greinst með kórónuveiruna eða eru komnir í sóttkví.

Liverpool vantar aðeins sex stig til að tryggja sér enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 30 ár og hefði að öllu eðlilegu þurft tvo leiki til þess svo framarlega sem Manchester City hefði unnið sína leiki.

Frestunin í dag þýðir hins vegar að Liverpool liðið getur orðið enskur meistari í næsta leik sem er eins og staðan er núna á móti Manchester City á Ethiad leikvanginum. Vinni Liverpool þann leik þá getur Manchester City ekki lengur náð liðinu í þeim leikjum sem lærisveinar Pep Guardiola eiga eftir.

Liverpool átti að mæta Everton á mánudagskvöldið og svo Crystal Palace á Anfield helgina á eftir en þeim leikjum hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma.

Það er möguleiki á að enska úrvalsdeildin fari aftur á stað í apríl og klárist þá mögulega í byrjun júní. Það fer hins vegar mikið eftir því hvernig baráttan við COVID-19 gengur sem og hvaða ákvörðun UEFA mun taka með framtíð Evrópumótsins í sumar.

Erlendir miðlar eru flestir á því að UEFA muni fresta EM um eitt ár og nota tímann í sumar til að klára deildarkeppnirnar og bæði Meistaradeildina og Evrópudeildina. Til að svo verði þurfa menn að hafa unnið sigur á kórónuveirunni og stöðvað útbreiðslu hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×