Sport

Yrði þjóðarskömm fyrir Englendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Varamannbekkur í leik FC Erzgebirge Aue og  SV Sandhausen í þýsku b-deildinni en tvær efstu deildirnar í Þýskalandi fóru af stað um síðustu helgi.
Varamannbekkur í leik FC Erzgebirge Aue og  SV Sandhausen í þýsku b-deildinni en tvær efstu deildirnar í Þýskalandi fóru af stað um síðustu helgi. Getty/Robert Michael

Englendingar eru að reyna að vinna í því að klára tímabilið í sínum tveimur efstu deildum en ferlið er mjög flókið og engar formlegar dagsetningar um endurkomu hafa verið gefnar út.

Angus Kinnear, framkvæmdastjóri Leeds United, tók sig til og skrifaði pistil í blaðið Yorkshire Evening Post þar sem hann ræddi þann möguleika á að Englendingar gætu litið illa út takist þeim ekki að koma til baka.

Kórónaveiran stöðvaði stærstu fótboltadeildir Evrópu og nær alla íþróttaviðburði heimsins. Nú þegar margar þjóðir eru komnar yfir erfiðasta hjallann eru fótboltadeildir þeirra að leita leiða til klára sín tímabil.

Þjóðverjar voru fyrstir af stað en fótboltinn fór aftur að rúlla í Bundesligunni og b-deildinni í Þýskalandi um síðustu helgi. Spánn og Ítalíu eru líka á fullu að skipuleggja endurkomu fótboltans í sínum löndum þrátt fyrir að báðar þjóðir hafi orðið mjög illa úti í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.

„England á bæði marga af bestu vísindamönnum íþróttaheimsins og öflugustu stjórnarmönnum fótboltans. Nú er kominn tími á það að við náum utan um vandamálið og förum að koma fram með lausnir,“ skrifaði Angus Kinnear.

„Það yrði þjóðarskömm fyrir Englendinga ef Bundesligan í Þýskalandi, La Liga á Spáni eða Sería A á Ítalíu gætu komið til baka með öruggum hætti en á sama tíma myndi stærsta og fimmta stærsta deild heims ekki gert hið sama,“ skrifaði Kinnear.

Enska úrvalsdeildin er stærsta deild heims út frá áhorfendafjölda en enska b-deildin er þar í fimmta sæti og þar með fyrir ofan þá frönsku.

Leeds United var á toppi ensku b-deildarinnar þegar keppni var stöðvuð út af COVID-19 og á góðri leið aftur upp í ensku úrvalsdeildina.

„Ef Leeds United ætlaði sér að vera tækifærissinni þá hefðum við stokkið á það að enda tímabilið strax og nota stig á leik til að raða upp töflunni. Okkar markmið hefur hins vegar alltaf verið það að klára tímabilið þar sem við byrjuðum það sem er inn á vellinum sjálfum,“ skrifaði Kinnear.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×