Erlent

Mun svara fyrir inngrip dómsmálaráðuneytisins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
William Barr (t.h.) hefur verið tryggur Trump forseta.
William Barr (t.h.) hefur verið tryggur Trump forseta. Vísir/EPA

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur samþykkt að mæta fyrir þingnefnd og svara spurningum þingmanna vegna inngrips dómsmálaráðuneytisins í mál gegn vini og bandamanni Donalds Trump forseta í kjölfar þess að forsetinn gagnrýndi málareksturinn gegn honum.

Roger Stone, sem hefur verið innanbúðarmaður í Repúblikanaflokknum um áratugaskeið, er vinur Trump forseta og var óformlegur ráðgjafi forsetaframboðs hans árið 2016. Hann var sakfelldur af kviðdómi fyrir að ógna vitni, ljúga að Bandaríkjaþingi og að hindra framgang réttvísinnar í nóvember.

Saksóknarar í máli hans kröfðust sjö til níu ára fangelsisvistar yfir Stone á mánudag. Sú krafa reitti Trump forseta til reiði sem tísti um hversu „hræðileg“ og „ósanngjörn“ meðferðin á vini hans væri í gær.

Sjá einnig: Roger Stone sakfelldur fyrir að hafa logið að bandaríska þinginu

Skömmu síðar tilkynnti dómsmálaráðuneytið um að það ætlaði að milda refsikröfuna yfir Stone.Allir saksóknararnir fjórir sem fóru með málið sögðu sig skyndilega frá því í gærog einn þeirra sagði alfarið af sér.

Roger Stone, fyrir miðju.getty/Chip Somodevilla

Demókratar á þingi hafa gagnrýnt þessa ákvörðun dómsmálaráðuneytisins harðlega og hafa þeir varað við því að réttarríkinu sé ógnað með þessu inngripi ráðuneytsins.

Barr mun mæta fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjanþings þann 31. mars næstkomandi þar sem hann má búast við því að verða spurður spjörunum úr út í málið.

Ákvörðunin um að breyta kröfunni um refsingu yfir Stone eftir að hún var lögð fram þykir afar óvanaleg og hefur hún vakið upp háværar umræður um að ráðuneytið, sem á að vera óháð frá öðrum öngum framkvæmdavaldsins, hafi látið stjórnast af pólitískum duttlungum Trump forseta.

Talsmaður ráðuneytisins fullyrti í gær að Hvíta húsið hefði ekki haft samband við ráðuneytið á mánudag eða þriðjudag um mál Stone. Ákvörðunin um að krefjast mildari refsingar hafi verið tekin áður en Trump tísti.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.