Enski boltinn

Skammaðist sín mikið síðustu mánuði sína hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Neville varð átta sinnum ensku meistari með Manchester United og kom síðasti titill hans vorið 2009. Hann var aðalfyrirliði liðsins síðustu fimm árin.
Gary Neville varð átta sinnum ensku meistari með Manchester United og kom síðasti titill hans vorið 2009. Hann var aðalfyrirliði liðsins síðustu fimm árin. EPA/RICH EATON

Gary Neville og Jamie Carragher hafa farið við víðan völl í umfjöllun Sky í kórónuveiruhléinu og þeir fóru meðal annars yfir síðustu dagana og mánuðina áður en knattspyrnuskór þeirra fóru upp á hillu.

Gary Neville ætlaði að enda ferilinn eftir 2009-10 tímabilið og sér eftir því að hafa ekki gert það.

„Ég var búinn að ákveða það að enda ferilinn eftir tímabilið og hafði þegar gert samning við Sky. Eins og var hjá Jamie þá hafði félagið einnig boðið mér að þjálfa hjá yngri liðunum," sagði Gary Neville en hann á ekki góðar minningar frá lokatímabili sínu með Manchester United.

„Ég endaði tímabilið á undan með því að eiga nokkra góða leiki og eftir það héldu knattspyrnustjórinn og David Gill að ég ætti enn eitt gott tímabil eftir í mér. Mér fannst ég hins vegar vera kominn á endastöð,“ sagði Gary Neville.

„Ef ég hefði endað þetta þá þá hefði það verið fullkomið. Ég tók hins vegar eitt tímabil í viðbót þar sem ég endaði á því að setja skóna upp á hillu í janúar. Þetta síðasta tímabil mitt var algjör hryllingur,“ sagði Neville sem sagði að erfið meiðsli hafi haft mikil áhrif á síðustu árin hans á ferlinum.

Gary Neville spilaði á endanum aðeins þrjá deildarleiki tímabilið 2010-11.

„Ég var eftir meiðslin ekki nálægt því að vera á sama stigi og hinir leikmennirnir. Ég var í ótrúlegu liði með mönnum eins og Rooney, Tevez, Vidic, Ferdinand, Van der Saar, Evra og Cristiano Ronaldo. Mér fannst ég vera minni maður en þeir á öllum æfingum,“ sagði Neville.

„Jamie talaði um það hann hafi örlítið skammast sína á æfingum á síðasta tímabilinu sínu. Ég skammaðist mín mikið þessa síðustu sex til átta mánuði hjá Manchester United. Ég vildi ekki vera valinn í liðið og vissi það mæta vel að það væri mikil áhætta að segja mig inn á völlinn,“ sagði Neville.

„Á æfingunum þá sá ég orkuna og hraðann hjá strákunum í liðinu sem var mun meiri en hjá mér. Það var augljóst fyrir mig að sjá það hvað þá fyrir aðra. Ég fór að reyna að nota reynsluna til að bjarga mér en það bjó líka til vandræði,“ sagði Neville sem rifjaði upp nokkrar hræðilegar frammistöður sínar undir lokin.

„Það var enginn spurning þarna að ég var búinn,“ sagði Gary Neville en það má sjá hvað hann sagði hér fyrir neðan.

Gary Neville spilaði allan sinn feril með Manchester United frá 1993 til 2011. Hann varð alls átta sinnum enskur meistari með félaginu en vann einnig Meistaradeildina tvisvar, enska bikarinn þrisvar, enska deildabikarinn tvisvar sem og heimseistarakeppni félagsliða.

Neville náði því að spila 85 landsleiki fyrir England en sá síðasti kom árið 2007 eða fyrir meiðslin sem hann talaði um hér fyrir ofan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.