Erlent

Conte myndi engu breyta og segir ESB þurfa að taka sig á

Andri Eysteinsson skrifar
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. Getty/Ivan Romano

Evrópusambandið verður að aðstoða þau ríki sem verst hafa farið út úr kórónuveirufaraldrinum með samstilltu og nægilegu átaki sagði Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, í viðtali við BBC.

Conte sagði ESB þurfa að stíga upp og takast á við það sem hann sagði vera mestu prófraunina frá seinni heimsstyrjöldinni. Ítalía hefur ásamt fleiri ríkjum óskað eftir því að öll Evrópusambandsríkin deili skuldum sínum vegna kórónuveirunnar, ekki eru öll ríkin þó sammála um aðgerðirnar, sér í lagi hafa Hollendingar lýst yfir andstöðu gegn tillögunni.

Hægst hefur á útbreiðslu veirunnar á Ítalíu en landið var í nokkurn tíma það land þar sem flest smit höfðu greinst á heimsvísu. 139.422 tilfelli hafa greinst í landinu og hafa 17.669 látist. Einungis hafa fleiri látist í Bandaríkjunum en smit eru fleiri á Spáni auk Bandaríkjanna.

Conte sagði þrátt fyrir að það væri að birta til ættu Ítalir ekki að slaka á. Boð og bönn ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins verði ekki aflétt nema hægt og rólega.

„Við þurfum að velja einhver svið sem geta hafið störf að nýju. Við gætum byrjað að slaka á aðgerðum í lok aprílmánaðar,“ sagði Conte.

Conte hefur hlotið mikið lof fyrir störf sín vegna veirunnar en í nýrri könnun sögðust 71% ánægð með störf Conte sem forsætisráðherra. Þó var Conte gagnrýndur í byrjun faraldursins fyrir að hafa ekki lokað Langbarðalandi í heild sinni.

„Ef við þyrftum að byrja aftur. Þá myndi ég gera allt eins. Stjórnkerfið á Ítalíu er allt annað en í Kína. Að okkar mati er það að brjóta á stjórnarskrárvörðum réttindum manna stórvægileg ákvörðun sem ekki má taka af rælni,“ sagði Conte.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×