Innlent

Handtekinn fjórum dögum eftir að hann tilkynnti andlát konu sinnar

Kolbeinn Tumi Daðason og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Frá Sandgerði þar sem fólkið er búsett.
Frá Sandgerði þar sem fólkið er búsett. Sandgerði.is

Sambýlismaður konu sem lést í Sandgerði þann 28. mars síðastliðinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. apríl. Hann var ekki handtekinn fyrr en fjórum dögum eftir að konan lést.

Samkvæmt heimildum fréttastofu kviknaði ekki grunur um að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti fyrr en við krufningu. Lögreglan á Suðurnesjum hefur ekki viljað svara þessum fyrirspurnum fréttastofu um helgina og í morgun en sendi svo frá sér tilkynningu á tólfta tímanum.

Þar kemur fram að laugardagskvöldið 28. mars hafi ættingi konunnar tilkynnt um andlát konunnar til lögreglunnar á Suðurnesjum.

„Rannsóknarlögreglumaður fór þegar ásamt lækni og presti á staðinn. Ekkert á vettvangi benti til þess að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Sama máli gegndi um líkskoðun á sjúkrastofnun,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Segjast hafa fylgt verklagsreglum frá fyrstu stundu

Þremur dögum síðar eða þann 1. apríl barst lögreglu niðurstaða réttarmeinafræðings þess efnis að sterkur grunur léki á að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti.

„Þá þegar var karlmaður á sextugsaldri handtekinn vegna rannsóknar á málinu. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 1. apríl til 8. apríl næstkomandi og staðfesti Landsréttur þann úrskurð 3. apríl síðastliðinn.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu er hinn handtekni sambýlismaður konunnar og var hann handtekinn á heimili þeirra.

„Það skal undirstrikað að lögregla fylgdi gildandi verklagsreglum við aðkomu að málinu frá fyrstu stundu. Rannsókn er í fullum gangi en ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo komnu máli.“

Fréttin hefur verið uppfærð eftir leiðréttingu lögreglu á fyrri tilkynningu sinni þar sem misfórst með dagsetningu. Réttarmeinafræðingur upplýsti um mögulega saknæmt andlát þann 1. apríl og var maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi handtekinn sama dag, en ekki 31. mars eins og sagði í fyrri tilkynningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×