Enski boltinn

Drogba klikkaði á víti í lokin í jafntefli Tottenham og Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lundúnaliðin Tottenham og Chelsea gerðu 1-1 jafntefli á White Hart Lane í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Roman Pavlyuchenko kom Tottenham yfir en Didier Drogba kom inn á sem varamaður og tryggði Chelsea stig en hann hefði getað tryggt liðinu sigur úr víti í uppbótartíma leiksins. Leikurinn var frábær skemmtun, mikill hraði og nóg af dramatík.

Chelsea lék þar með sinn fimmta leik í röð í ensku úrvalsdeildinni án þess að vinna en þetta var bara sjötta stig liðsins af 21 mögulegu í síðustu sjö leikjum.

Roman Pavlyuchenko kom Tottenham í 1-0 á 15. mínútu. Hann tók þá glæsilega við sendingu frá Jermain Defoe, losaði sig við John Terry og afgreiddi boltann glæislega í hornið framhjá Peter Cech í marki Chelsea.

Didier Drogba kom inn á í hálfleik og jafnaði leikinn á 70. mínútu. Markið kom eftir útspark Peter Cech þar sem Drogba náði að snúa af sér Michael Dawson og skjóta. Boltinn fór beint á Heurelho Gomes í markinu sem missti hann klaufalega yfir sig.

Luka Modric og Branislav Ivanovic.Mynd/AFP
Frank Lampard kom inn á sem varamaður á 78. mínútu og lék sinn fyrsta leik síðan á móti Stoke í ágúst en hann fékk þó ekki að taka víti afdrifaríka á lokasekúndum leiksins sem hefði getað skilað liðinu langþráðan sigur.

Didier Drogba fékk nefnilega kjörið tækifæri til að tryggja Chelsea langþráðan sigur í uppbótartíma þegar Heurelho Gomes braut klaufalega á Ramires og víti var dæmt. Gomes bætti hinsvegar fyrir mistökin og varði vítið frá Drogba.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×