Lífið

Hefur slegið í gegn sem Kjellinn í Steindanum

„Félagi minn spurði hvort ég var til í þetta og ég sló bara til. Það var búið að vara mig við að þetta yrði smá vinsælt og ég ákvað bara að taka því," segir grínistinn Atli Helgason, eða „Kjellinn" í gamanþáttunum Steindinn okkar.

Hann hefur birst upp úr þurru í hverjum þætti í Steindanum okkar að undanförnu, sagt orðið „kjellinn", og horfið síðan á braut. Þetta stutta en hnitmiðaða grínatriði hefur fallið vel í kramið hjá aðdáendum Steindans.

Hér fyrir ofan má meðal annars sjá atriðið Síðasta óskin, þar sem Kjellinum bregður fyrir.

Atli, sem er 28 ára og mikill aðdáandi Seinfeld-þáttanna, segir athyglina sem hann hefur fengið að undanförnu alveg nýja fyrir sér, enda hefur hann aldrei leikið áður. „Ég hef aldrei upplifað svona áður. Fólk kallar stundum á mig og ég brosi bara og þá brosir það á móti."

Til að leika í þáttunum hefur hann brugðið sér úr vinnu sinni hjá Útilífi og brunað á tökustað, stundum í hádegishléinu sínu. „Þetta eru allt frábærir gaurar og það er gott andrúmsloft í kringum þetta," segir hann um Steinda og félaga.

Sjálfur er Steindi ánægður með frammistöðu Atla. „Þegar við ákváðum að hafa þennan karakter kom eiginlega enginn annar til greina," segir hann. „Ég er mjög ánægður með „Kjellinn" og ég er hundrað prósent viss um að það er enginn sem gæti tæklað „Kjellinn" betur en „Kjellinn"."

Annarri þáttaröð af Steindanum okkar lauk í gær. Þegar Atli er spurður hvort hann muni halda áfram samstarfi sínu við Steinda og félaga segist hann ekki hafa hugmynd um það. Hann býst alltént ekki við því að „Kjellinn" snúi aftur enda er Steindi ekki vanur að halda áfram með sömu persónur þáttaröð eftir þáttaröð.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.