Erlent

70 þúsund hermenn kallaðir heim

Að minnsta kosti 70 þúsund bandarískir hermenn verða kallaðir heim frá herstöðvum í Evrópu og víðar í umfangsmestu breytingum á bandaríska heraflanum frá lokum Kalda stríðsins. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um þessa fyrirætlan á ráðstefnu fyrrverandi hermanna í Cincinnatti í Bandaríkjunum í gær. Til viðbótar við hermennina hefur þessi áætlun í för með sér tilflutning á 100 þúsund manns, fjölskyldum hermannanna og öðrum starfsmönnum hersins. Ónafngreindur foringi í bandaríska hernum í Evrópu sagði við AP-fréttastofuna að áæltunin myndi ekki koma til framkvæmda fyrr en á árunum 2006 til 2001. Hann sagði að þegar hefði verið rætt við þau ríki sem í hlut ættu um smáatriði áætlunarinnar en niðurstaðan væri þó ekki ljós enn. "Þetta er allt spurning um pólitík og þegar svo er, þá hafa margir þættir áhrif," sagði herforinginn. Alls eru 200 þúsund bandarískir hermenn í herstöðvum erlendis en utan Íraks og Afganistans. Helmingur þeirra er í herstöðvum í Evrópu, þar af 70 þúsund í Þýskalandi. Búist er við að flestir hermennirnir verði sendir til herstöðva í Bandaríkjunum en einhverjir fari til herstöðva í Austur-Evrópu. Þá er einnig búist við fækkun í herliði Bandaríkjamanna í Suður-Kóreu. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að hann vilji auka viðbragðsflýti bandaríska hersins og gera hann fjölhæfari. Þar með yrði hægt að nota herinn í fjölbreyttari aðgerðir í stað þess að binda fjölmennar hersveitir við einstök lönd. Líklegt þykir að þessar tilfæringar á bandaríska heraflanum muni auka fylgi Bush meðal hermanna og fjölskyldna þeirra, nú þegar tæpir þrír mánuðir eru til forsetakosninga. John Kerry, andstæðingur Bush, mun einnig ávarpa ráðstefnu fyrrverandi hermanna en hún er haldin í Ohio-ríki, þar sem kannanir hafa sýnt að afar mjótt er á mununum milli forsetaframbjóðenda. Kerry hefur lagt til að fjölgað verði í hernum um 40 þúsund manns og að sérsveitir hans verði efldar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×