Íslenski boltinn

„Færum Þjóðhátíð á Hásteinsvöll“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson er þjálfari ÍBV.
Hermann Hreiðarsson er þjálfari ÍBV. Mynd/Daníel
Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir að Eyjamenn hafi lengi beðið um að fá að spila leik í Pepsi-deild karla um verslunarmannahelgi.

KSÍ staðfesti í morgun að leikur ÍBV og FH muni fara fram á Hásteinsvelli laugardaginn 3. ágúst klukkan 14.00. Búist er við því að þá verði um 13-15 þúsund manns á Þjóðhátíð í Eyjum.

 

„Við erum búnir að biðja lengi um þetta,“ segir hann við Vísi. „Við hefðum reyndar frekar viljað spila á föstudeginum, upp á öryggið að gera, en við klárum þetta eins og allt sem við tökum okkur fyrir hendur.“

„Gæslan verður aðalmálið. Við þurfum að gæta að öryggi allra þeirra sem koma að leiknum og passa upp á að menn séu ekki að kasta aðskotahlutum inn á völlinn.“

Óskar hefur ekki áhyggjur af því að gæslan verði upptekin við hátíðarhöldin sjálf og að erfitt verði að manna gæsluna á leiknum sjálfum. „Þá færum við bara Þjóðhátíðina á Hásteinsvöll og gæsluna með,“ segir hann í léttum dúr.

Hásteinsvöllur er með leyfi til að selja 2600 aðgöngumiða og Óskar telur að aðsóknarmetið á völlinn sé 2600 manns. „Við hljótum að jafna metið,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×