Enski boltinn

David de Gea: Aðeins titill getur bætt upp vonbrigðin í Evrópukeppnunum

David de Gea, markvörður Englandsmeistaraliðs Manchester United, er bjartsýnn á að liðið nái að bæta fyrir slakan árangur í Evrópukeppnum tímabilsins
David de Gea, markvörður Englandsmeistaraliðs Manchester United, er bjartsýnn á að liðið nái að bæta fyrir slakan árangur í Evrópukeppnum tímabilsins Getty Images / Nordic Photos
David de Gea, markvörður Englandsmeistaraliðs Manchester United, er bjartsýnn á að liðið nái að bæta fyrir slakan árangur í Evrópukeppnum tímabilsins. Spánverjinn sagði í gær að titilvörnin á Englandi væri það eina sem gæti bætt það upp að Man Utd náði ekki árangri í Meistaradeild Evrópu né Evrópudeild UEFA.

Athletic Bilbao frá Spáni var hindrun sem Man Utd náði ekki að ryðja úr vegi í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA. Spænska liðið vann báðar viðureignirnar gegn Man Utd og samanlagt 5-3 (2-1 heima og 3-2 á Old Trafford).

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að reyna að landa titlinum í ensku úrvalsdeildinni. Við erum í efsta sæti. Manchester City hefur leikið vel, en við erum með sterkt lið, frábæra stuðningsmenn og við getum unnið deildina," sagði De Gea en Man Utd mætir Wolves á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni.

„Leikurinn gegn Wolves verður erfiður, og við verðum að einbeita okkur að þeim leik," sagði hinn 21 árs gamli markvörður sem hefur fengið sinn skerf af gagnrýni í vetur.

„Enska deildin er krefjandi, og það er meiri ákefð í leikjunum. Sjálfstraustið er smátt og smátt að aukast hjá mér. Það var margt nýtt og ég þurfti að aðlagast nýjum hlutum þegar ég kom til Englands fyrst," sagði markvörðurinn eftir tapleikinn á Spáni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×