Innlent

Asíski risa­geitungurinn gæti ekki náð fót­festu á Ís­landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á vef Vísindavefsins kemur fram að þernur þessarar geitungategundar geti verið 25-45 mm á lengd en drottningin getur verið allt að 55 mm löng.
Á vef Vísindavefsins kemur fram að þernur þessarar geitungategundar geti verið 25-45 mm á lengd en drottningin getur verið allt að 55 mm löng. Vísir/Getty

Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands, segir að asíski risageitungurinn sem óttast er að nái fótfestu í Washington-fylki í Bandaríkjunum myndi hvorki geta lifað af hér né fjölgað sér. Um sé að ræða hitabeltistegund sem þrífist í hitabeltisloftslagi.

Þetta kom fram í viðtali við Gísla í Reykjavík síðdegis í gær en tvö staðfest tilfelli af geitungnum hafa komið upp í Washington-fylki.

„Þetta er geitungur sem er með útbreiðslu í Suðaustur-Asíu og norður til Japans, að vísu er önnur undirtegund í Japan. Vissulega eru þeir stórir en þeir eru í svona hitabeltisloftslagi þannig að ef þeir fara eitthvað um Bandaríkin, sem þeir gætu gert, þá væri það frekar suður á bóginn frá Washington-fylki til hlýrri landa eða fylkja,“ sagði Gísli.

Þá væri ein stunga ekki hættuleg fyrir menn.

„En þessir geitungar eru í sjálfu sér ekkert svo hættulegir nema að þeir verða fyrir ónæði af mönnum, ef menn rekast í búin þeirra eða koma við þá, þá geta þeir ráðist í stórum hópum á menn og þá geta þeir verið raunverulega hættulegir. En ein stunga er ekki hættuleg fyrir menn,“ sagði Gísli.

Vitað væri til þess að 20 til 30 stykki hafi banað manni. Þeir stingi með afturendanum og sprauti eitri. Við það verði það mikil ónæmisviðbrögð hjá manneskjunni að hún deyr.

En vegna þess að þetta er hitabeltistegund, eigum við Íslendingar þá ekki að hafa áhyggjur af því að þessi tiltekna tegund komið hingað?

„Nei, ef hún kemur hingað þá á hún ekki eftir að geta lifað hérna og fjölgað sér,“ sagði Gísli í Reykjavík síðdegis en viðtalið við hann má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×