Lífið

Fannst það ó­raun­veru­legt þegar henni var óskað til hamingju hjá lækninum

Eiður Þór Árnason skrifar
Hildur Guðnadóttir hefur gert það gott síðustu misseri.
Hildur Guðnadóttir hefur gert það gott síðustu misseri. Ap/richard shotwell

Hildur Guðnadóttir tónskáld segist varla hafa verið búin að ná andanum eftir Golden Globe-verðlaunahátíðina í síðustu viku þegar henni var tilkynnt um tilnefningu sína til Óskarsverðlaunana fyrr í dag.

Hún segir í samtali við bandaríska dægurmiðilinn Rolling Stone að hún sé meðvituð um þá miklu þýðingu sem velgengni hennar gæti haft fyrir aðrar konur í faginu og vonast til þess að þetta verði til að fjölga tækifærum fyrir þær.

Sjá einnig: Hollywood-tón­skáldið úr Hafnar­firði: Tón­listar­upp­eldið, Rúnk og vin­skapurinn við Jóhann Jóhanns­son

Í því samhengi lýsir Hildur því hvernig hún hafi fyrir tíu árum fundið fyrir ákveðinni tregðu innan Hollywood gagnvart því að treysta kvenkyns tónskáldum fyrir stórum verkefnum.

Hún var stödd með eiginmanni sínum, bandaríska tónskáldinu Sam Slater, hjá lækni á dögunum þegar hjúkrunarfræðingur nálgaðist hana og óskaði henni til hamingju með Golden Globe-verðlaunin.

„Fyrir stelpu frá litlum bæ á Íslandi, þá er það frekar óraunverulegt að vera sitjandi á læknastofu í Los Angeles og fá hamingjuóskir frá hjúkrunarfræðingnum.“

Hildur þakkaði fyrir alla ástina og heillaóskirnar sem hún hafi fengið síðastliðna viku á Twitter-síðu sinni í dag.

Hún er sjöundi Íslendingurinn til þess að fá tilnefningu til Óskarsverðlauna en Jóhann Jóhannsson fékk til að mynda tilnefningar árin 2015 og 2016 fyrir tónlist sína í kvikmyndunum The Theory of Everything og Sicario. Jóhann og Hildur unnu mikið saman á sínum tíma.

Rétt um vika er síðan Hildur vann Golden Globe verðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker og þykir hún einnig líkleg til þess að hljóta Óskarinn. Hildur yrði þá fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarsverðlaun.


Tengdar fréttir

Sigurganga Hildar heldur áfram

Hildur Guðnadóttir hreppti tvenn stór verðlaun á verðlaunahátíð Samtaka tónskálda og textahöfunda í Los Angeles, sem fram fóru á þriðjudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×