Mario Mandžukić, leikmaður Bayern München og króatíska landsliðsins í fótbolta, fékk bara einn leik í bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk á móti Íslandi í umspilinu um laust sæti á HM í Brasilíu næsts sumar.
Mandžukić fékk beint rautt spjald fyrir gróft brot á Jóhanni Berg Guðmundssyni í lok fyrri hálfleiks í seinni leiknum í Zagreb en hann hafði áður komið Króötum í 1-0 í leiknum. Króatía vann leikinn 2-0 og tryggði sér sæti á HM í Brasilíu.
FIFA fannst brotið ekki það alvarlegt að það kallaði á einhverja auka refsingu og Mandžukić slapp því afar vel.
Mandžukić missir af fyrsta leik Króata sem er á móti Brasilíu en það er opnunarleikur keppninnar. Hann má hinsvegar spila leikina á móti Kamerún og Mexíkó.
