Fótbolti

Portúgalar slátruðu heimsmeisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hugo Almeida fagnar marki sínu í kvöld.
Hugo Almeida fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP

Fjölmargir vináttulandsleikir fóru fram víða um Evrópu í kvöld en í þeim síðasta gerði Portúgal sér lítið fyrir og slátruðu heims- og Evrópumeisturum Spánar, 4-0.

Carlos Martins kom Portúgal yfir með marki í lok fyrri hálfleiks en Portúgal hafði verið mun sterkari aðilinn í leiknum.

Cristiano Ronaldo virtist hafa komið Portúgal yfir fyrr í leiknum en félagi hans, Nani, ákvað að skalla boltann þegar hann var á leiðinni inn í markið og var dæmdur rangstæður.

En þeir létu þetta ekki á sig fá og héldu áfram að sækja grimmt í síðari hálfleik. Helder Postiga kom Portúgal í 2-0 á 49. mínútu og hann bætti svo við þriðja markinu 20 mínútum síðar.

Hugo Almeda innsiglaði svo glæsilegan sigur Portúgals með fjórða markinu í lok leikins. Þar með hefndu Portúgalar fyrir ófarirnar á HM í Suður-Afríku í sumar er Spánverjar slógu þá út í 16-liða úrslitum keppninnar.

Portúgal er með Íslandi í riðli í undankeppni EM 2012 þar sem liðið byrjaði illa og fékk aðeins eitt stig úr fyrstu tveimur leikjunum.

En þá var Carlos Queiroz rekinn og Paulo Bento tók við. Hann fékk sex stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum, gegn Danmörku og Íslandi, og er sjálfsagt kominn í guðatölu í heimalandinu eftir sigurinn á heimsmeisturum í kvöld.

Úrslit valdra leikja í dag:



Argentína - Brasilía 1-0

1-0 Lionel Messi (90.)

Danmörk - Tékkland 0-0

Svíþjóð - Þýskaland 0-0

Holland - Tyrkland 1-0

1-0 Klaas-Jan Huntelaar (52.)

Rúmenía - Ítalía 1-1

1-0 C. Marica (34.), 1-1 Fabio Quagliarella (82.).

England - Frakkland 1-2

0-1 Karim Benzema (16.), 0-2 Mathieu Valbuena (55.), 1-2 Peter Crouch (86.).

Írland - Noregur 1-2

1-0 Shane Long, víti (5.), 1-1 Morten Gamst Pedersen (34.), 1-2 Erik Huseklepp (86.).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×