Erlent

10 ára börn í herþjálfunarbúðum

Tíu ára palestínskum börnum er kennt að drepa og sprengja í sérstökum herþjálfunarbúðum á Gasasvæðinu. Myndir frá þessum illræmdu búðum komu í fyrsta sinn fyrir almenningssjónir í dag á sjónvarpsstöðinni Sky. Í búðunum undirgangast palestínskir drengir, allt niður í tíu ára gamlir, stranga herþjálfun. Á myndunum má sjá þá í skotæfingum, koma fyrir sprengjum og æfa fyrirsát og ná sumir þeirra varla utan um riffla sína. Þjálfunarbúðirnar eru reknar af andspyrnuhópi sem segir að næsta kynslóð Palestínumanna verði að kunna að berjast gegn hersetu Ísraelsmanna. Mustafa, tíu ára gamall strákur í búðunum, segir að hann langi til að skjóta niður ísraelskar flugvélar og skriðdreka.   Á einu myndskeiðinu má sjá drengina skríða undir gaddavír og stökkva yfir eldhaf á meðan kúlnaregn dynur yfir höfðum þeirra. Þá sjást þeir fá kennslu í að ræna bílum ísraelskra landnema. Drengirnir fá jafnvel útskriftarskírteini að lokinni þjálfun frá yfirmanni búðanna. Fréttastofa Sky segist hafa vitneskju um fleiri slíkar þjálfunarbúðir á Gasasvæðinu. Hægt er að horfa á myndirnar á Veftíví-síðunni. Meðfylgjandi ljósmynd er tekin af eldri palestínskum skæruliðum í Gasaborg í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×