Fótbolti

Hjörvar um Víking: „Að lokum sigruðu vísindin“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kári Árnason í leik með Víkingum fyrr í sumar.
Kári Árnason í leik með Víkingum fyrr í sumar. vísir/daníel

Sparkspekingurinn og fjölmiðlamaðurinn Hjörvar Hafliðason segir að öll tölfræði úr Pepsi Max-deildinni í fyrra hafi bent til þess að Víkingur hafi aldrei átt að vera í fallbaráttu eins og raunin varð framan af sumri.

Það var farið yfir víðan völl í Sportinu í kvöld þar sem þeir Guðmundur Benediktsson, Hjörvar Hafliðason og Sigurvin Ólafsson ræddu meðal annars um Pepsi Max-deildina og Víking.

„Það er eitt sem er svo jákvætt við að fótboltinn er að breytast að við erum alltaf að ræða tækni og framþróun. Stjórnarmenn gátu alltaf verið rólegir þó að úrslitin hafi ekki verið að koma. Það sagði allt í stærðfræðinni og tölfræðinni að Víkingar ættu að vera með fleiri stig,“ sagði Hjörvar og hélt áfram.

„Ég ætla ekki að segja það að stjórnarmenn Víkings séu það klárir að þeir hafi horft á þetta þannig. Ég var með aðgang að einhverju sem heitir xG (e. Expected goals) sem ég held að flestir kannist við í dag. Það var ekkert sem sagði okkur að Víkingar ættu að vera í fallbaráttu.“

„Sem betur fer önduðu þeir með nefinu og héldu sér við það sem þeir voru að gera því öll tölfræði og öll fræðin sýndu að Víkingar voru alltof góðir til þess að vera þarna niðri. Að lokum enduðu þeir í sjötta sæti eða eitthvað slíkt. Að lokum sigruðu vísindin,“ sagði Hjörvar.

Klippa: Sportið í kvöld - Hjörvar um tölfræðina hjá Víkingi

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.