Þótt hvítur litur hafi verið áberandi á sýningunni voru einnig fallegir litir í boði. Litir sem lífga upp á fallega sumardaga. Piccioli þykir hafa næmt auga fyrir rómantískum stíl og leggur mikla áherslu á smáatriði sem færa líf í hönnunina.
Valentino setti upp sína fyrstu verslun í Róm árið 1960. Piccioli hefur sagt að Róm sé mun umburðarlyndari borg en Mílanó. „Í Róm er fólk víðsýnt og enginn að dæma annan,“ segir hann. „Starf mitt sem hönnuður á að endurspegla þá veröld sem við búum í. Mér finnst ég vera á réttum stað hjá Valentino. Ég er ítalskur, Rómverji, og saga Valentino er hluti af menningu minni og sögu,“ segir Piccioli. Hann er rúmlega fimmtugur og hefur unnið lengi fyrir Valentino sem er kominn hátt á áttræðisaldur.




