Erlent

Þingmaður segir Íslendinga „drepa“ fleiri með þungunarrofi en fíkniefnastríðið

Kjartan Kjartansson skrifar
Vicente Sotto, forseti öldungadeildar filippseyska þingsins.
Vicente Sotto, forseti öldungadeildar filippseyska þingsins. Vísir/EPA

Forseti öldungadeildar filippseyska þingsins segir að hunsa ætti ályktun mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um rannsókn á fíkniefnastríði Rodrigo Duterte forseta, meðal annars vegnar þess að Ísland skorti siðferði til að segja Filippseyingum til um mannréttindi. Fullyrðir hann að Íslendingar drepi fleiri með þungunarrofi en falla í fíkniefnastríðinu.

Filippseysk stjórnvöld hafa brugðist ókvæða við samþykkt mannréttindaráðsins á tillögu Íslands um að Sameinuðu þjóðirnar rannsaki mannréttindabrot í fíkniefnastríði Duterte sem hefur kostað þúsundir manna lífið. Forsetinn hefur staðið fyrir fjölda aftaka á meintum glæpamönnum utan dóms og laga frá því að hann komst til valda.

Nú ber Vicente Sotto, forseti öldungadeildar filippseyska þingsins, aftökurnar saman við þungunarrof á Íslandi og fullyrðir að fleiri „ófædd börn“ hafi látið lífi á Íslandi en fíkniefnasalar á Filippseyjum.

„Glæpamennirnir geta barist, börnin geta það ekki. Hvaða mannréttindi eru þeir að tala um,“ sagði Scotto.

Reuters-fréttastofan segir að Imee Marcos, verðandi öldungadeildarþingmaður og dóttir fyrrum einræðisherra landsins Ferdinands Marcos, hafi tekið í sama streng um þungunarrof á Íslandi.

Rúmlega þúsund þungunarrof voru gerð á Íslandi árið 2017 og er tíðni þeirra nálægt norrænu meðaltali, samkvæmt tölum embættis landlæknis. Stjórnvöld á Filippseyjum hafa gengist við því að sex þúsund manns hafi verið drepnir í fíkniefnastríði þeirra. Mannréttindsamtök telja fjöldann á annan tug þúsunda.

Þrátt fyrir óánægju filippseyskra stjórnvalda hafa mannréttindasamtök fagnað ályktun mannréttindaráðsins. Þau fullyrða að stjórnvöld á Filippseyjum hylmi yfir brot, komi fyrir sönnunargögnum og að fulltrúar þeirra fái að athafna sig án ótta við refsingu.


Tengdar fréttir

Segir Ís­lendinga hand­bendi eitur­lyfja­baróna

Fari svo að tillaga, sem gerir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að rannsaka fíkniefnastríð Filippseyjaforseta, verði samþykkt munu allir sem að henni standa fá veglega bónusgreiðslu frá eiturlyfjahringjum.

Mannréttindavaktin fagnar hugrekki Íslands

Sérfræðingur í málefnum Filippseyja hjá Mannréttindavaktinni segir ályktun Íslands aðeins fyrsta skrefið í að draga filippseysk stjórnvöld til ábyrgðar.

Vísar ásökunum um hræsni til föðurhúsanna

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vísar ásökunum sendiherra Filippseyja um hræsni Íslendinga í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna til föðurhúsanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.