Erlent

Út­göngu­banni af­létt á Samóa vegna mis­lingafar­aldursins

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hefur 81 látið lífið af völdum mislinga á Samóaeyjum síðustu vikurnar.
Alls hefur 81 látið lífið af völdum mislinga á Samóaeyjum síðustu vikurnar. Getty

Talsmenn yfirvalda á Samóaeyjum segja að tekist hafi að ná stjórn á mislingafaraldrinum sem herjað hefur á íbúa eyjanna síðustu vikurnar. Búið er að aflétta útgöngubanni sem komið var á fyrir sex vikum til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

Samóamenn hafa síðustu vikur unnið markvisst að því að bólusetja íbúa á eyjunum og hefur herferðin nú þegar skilað miklum árangri. Fyrir tíu dögum gerði ríkisstjórn landsins það að skyldu að bólusetja börn gegn mislingum.

Nærri sex þúsund manns hafa smitast af mislingum á Samóaeyjum síðustu vikurnar og hefur 81 látið lífið, langflestir yngri en fjögurra ára og óbólusettir.

Alls búa um 200 þúsund manns á Samóaeyjum. Er talið að ferðamaður frá Nýja-Sjálandi hafi borið sjúkdóminn til eyjanna og þannig valdið faraldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×