Innlent

Sáu ekki neitt þegar þær fóru út í hest­hús að gefa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndböndum sem Hjördís sendi fréttastofu.
Skjáskot úr myndböndum sem Hjördís sendi fréttastofu.

Hjördís Jónsdóttir er fædd og uppalin á Leysingjastöðum 2 í Austur-Húnavatnssýslu. Þar er fjölskylda hennar með búskap og fóru hún og systir hennar af stað klukkan fimm síðdegis í dag út í hesthús til að gefa kvöldgjöfina.

Vanalega tekur það tvær mínútur að labba frá bænum út í hesthús en í aftakaveðrinu sem nú gengur yfir landið tók það systurnar tíu mínútur að labba þennan spöl. Rauð veðurviðvörun er í gildi á Norðurlandi vestra.

„Það er bara brjálað veður. Við sjáum ekki út úr neinum gluggum og það er varla hægt að komast út í hesthús og hvað þá frá því. Við systir mín héldumst bara í hendur meðan við löbbuðum inn, við sáum ekki neitt og vonuðumst bara eftir að við myndum komast að húsinu. Við vorum með hlífðargleraugu til að fá ekki snjó í augun en við sáum ekki mikið hvort sem er,“ segir Hjördís í samtali við Vísi.

Þær komust í hesthúsið en rafmagnið sló út þar svo þær biðu í svolítinn tíma vegna þess en líka vegna veðursins. Systurnar komu úr hesthúsinu um klukkan hálfsjö í kvöld og þá hafði veðrið versnað mikið.

Aðspurð segir Hjördís þetta versta veður sem þau fjölskyldan á bænum hafi upplifað.

„Já, klárlega, þetta er rosalegt.“

Hún segir að þær systur hafi gefið hrossunum vel svo ekki þurfi að fara aftur út að gefa fyrr en á morgun þegar veðrið ætti að vera gengið niður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.