Sport

Táningarnir hafa aldrei synt hraðar en á EM í morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir bætti sitt persónulega met í tveimur greinum.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir bætti sitt persónulega met í tveimur greinum. Mynd/SSÍ

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Snæfríður Sól Jórunnardóttir settu báðar persónuleg met í morgun í undanrásum á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Glasgow og Jóhanna meira að segja í tveimur greinum.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Snæfríður Sól Jórunnardóttir eru yngstu landsliðsmenn Íslands á mótinu, Jóhanna Elín er átján ára en Snæfríður Sól er nítján ára.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir hóf keppni Íslendinga í dag þegar hún keppti í undanrásum í 50 metra flugsundi sem hún synti á 27,19 sekúndum, en það er 41/100 úr sekúndu bæting á hennar besta tíma. Það var nóg að gera hjá henni í morgun og stutt í næsta sund.

Jóhanna Elín synti öðru sinni, nú 100 metra skriðsund og bætti tímann sinn einnig í þeirri grein þegar hún synti á 56,03 sekúndum sem er líka 41/100 úr sekúndu betri tími en hún átti.  

Jóhanna Elín var að vonum ánægð með sig að loknum þessum tveimur greinum sínum og skokkaði glaðbeitt til búningsklefa samkvæmt frétt á heimasíðu íslenska Sundsambandsins.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti líka í 100 metra skriðsundi og hún bætti einnig sinn besta tíma. Snæfríður Sól synti á 55,25 sekúndum en átti fyrir 55,57 sekúndur síðan í október. Hún lét vel af sér eftir sundið og á sína bestu grein 200 metra skriðsund eftir síðar á mótinu.

Snæfríður Sól endaði í 34. sæti í undanrásunum en Jóhanna Elín í 47. sæti.

Kristinn Þórarinsson endaði einstaklingssundin í þessum hluta með 100 metra baksundi.  Hann synti á 53,99 sekúndum sem er rétt við tímann sem hann setti á ÍM25. Kristinn var sáttur eftir sundið, sagði þetta lofa góðu með framhaldið. Kristinn endaði í 50. sæti.

Í lokin synti íslenska sveitin 4x50 metra fjórsund – kynblandað boðsund. Sveitina skipuðu Kolbeinn Hrafnkelsson sem synti baksundið, Kristinn Þórarinsson bringusundið, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir flugsundið og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sem synti skriðsundið. Tími sveitarinnar var 1:44,51 mín.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.