Erlent

Engir and­stæðingar Lúka­sjen­kó komust á þing

Atli Ísleifsson skrifar
Aleksandr Lúkasjenkó hefur stýrt Hvíta-Rússlandi í um aldarfjórðung.
Aleksandr Lúkasjenkó hefur stýrt Hvíta-Rússlandi í um aldarfjórðung. Getty
Engir andstæðingar Aleksandr Lúkasjenkó, einræðisherra Hvíta-Rússlands, voru kjörnir á þing samkvæmt niðurstöðum landskjörstjórnar. Öll 110 þingsætin féllu í skaut samflokksmanna Lúkasjenkó eða stuðningsflokka.

Stjórnarandstaðan í landinu var með tvo menn i neðri deild þingsins á síðasta kjörtímabili. Þeim var hins vegar meinað að bjóða sig fram að þessu sinni. Sömu sögu er að segja af helstu leiðtogum stjórnarandstöðuflokka.

Lúkasjenkó hefur stýrt Hvíta-Rússlandi síðasta aldarfjórðunginn og hefur tilkynnt að hann komi til með að bjóða sig fram í forsetakosningum á næsta ári. Hann segir að hvít-rússneska þjóðin geti alltaf komið honum frá völdum. „Ég hef lofað því að ég ætli ekki að ríghalda í þetta embætti þar til að fingur mínir bláni. Trúið mér, þetta er ekkert sérlega þægilegt embætti.“

Fulltrúar ÖSE sem störfuðu við kosningaeftirlit segja kjósendur í landinu hafi haft „litla trú á ferlinu“. Þá hafi komið upp grunur um kosningasvindl.

Rúmlega 35 prósent atkvæðisbærra manna greiddu atkvæði utankjörfundar, en samkvæmt kjörstjórn var kosningaþátttakan 77 prósent.

Lúkasjenkó hefur á síðustu mánuðum reynt að bæta tengsl Hvíta-Rússlands og Vesturlanda, en samband Hvíta-Rússlands og Rússlands versnuðu nokkuð eftir að stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi neituðu að viðurkenna innlimun Rússlands á hinum úkraínska Krímskaga árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×