Innlent

Tíðinda­litlir tveir dagar í veðrinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Miðað við spána ætti að viðra ágætlega til útivistar í dag og á morgun.
Miðað við spána ætti að viðra ágætlega til útivistar í dag og á morgun. vísir/vilhelm

Næstu tveir dagar verða tíðindalitlir í veðrinu að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag er þannig útlit fyrir hæga austlæga átt á landinu. Víðast hvar verður úrkomulaust og nokkuð bjart veður þegar líður á daginn. Þó mun hann aðeins blása með suðurströndinni, kringum tíu metra á sekúndu og á með éljum.

Yfir daginn skríður hitinn yfir frostmarkið með suður- og vesturströndinni, annars er frost á landinu og nær það á sumum stöðum tveggja stafa tölu.

Í nótt var kaldast á Sauðarárkróksflugvelli þar sem það mældist 13 stiga frost.

Á morgun er síðan fremur rólegur vindur í kortunum og suðlægari átt. Líkur á dálitlum éljum á víð og dreif en norðaustan til á landinu verður léttskýjað.

„Af ofansögðu má vera ljóst að næstu tveir dagar eru tíðindalitlir í veðrinu. Það breytist á föstudaginn, þá er útlit fyrir að gangi í hvassa suðaustan- og austanátt sunnan til á landinu. Með fylgir rigning eða slydda á láglendi, en snjókoma til fjalla. Á norðanverðu landinu verður hins vegar þurrt og hægari vindur. Hitatölurnar þokast uppávið með hvassviðrinu,“ segir í  hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Hæg austlæg átt, úrkomulaust að kalla og birtir allvíða til með deginum. Austan 8-13 m/s og él syðst á landinu.

Suðlæg eða breytileg átt 3-8 á morgun og dálítil él á víð og dreif, en léttskýjað norðaustanlands. Bætir í vind vestast annað kvöld.

Frostlaust að deginum við suður- og vesturströndina, annars frost 0 til 10 stig, kaldast fyrir norðan.

Á fimmtudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og dálítil él á víð og dreif, en léttskýjað norðaustantil á landinu. Frost 0 til 10 stig, kaldast á Norðausturlandi, en frostlaust við suður- og vesturströndina að deginum.

Á föstudag:
Gengur í suðaustan og austan 15-23 á sunnanverðu landinu með rigningu eða slyddu á láglendi. Hiti 1 til 5 stig. Hægari vindur norðantil, þurrt og minnkandi frost.

Á laugardag:
Austan 10-18, hvassast á Suðausturlandi. Rigning eða slydda á láglendi sunnan- og austanlands, en þurrt á Norður- og Vesturlandi. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag og mánudag:
Suðaustan- og austanátt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.