Lífið

Kristilegi snillingurinn og milljarðamæringurinn Kanye West

Andri Eysteinsson skrifar
West gaf nýlega út plötuna Jesus Is King.
West gaf nýlega út plötuna Jesus Is King. Getty/Raymond Hall
Tónlistarmaðurinn og hönnuðurinn berorði Kanye West hefur ekki verið þekktur fyrir það að vera hræddur við að láta gamminn geisa, sama hvort það sé í lögum hans eða í viðtölum.

Kanye gaf nýverið út plötuna Jesus Is King þar sem að kristnin er í fyrirrúmi. Lög plötunnar sem bera heiti eins og On God, God Is, Use this Gospel og Jesus is Lord eru stútfull af vísunum í bók bókanna, Biblíuna.

Kristnin er því West hugleikin þessa dagana en í óvæntu viðtali á 2019 Fast Company Innovation hátíðinni ýjaði tónlistarmaðurinn að því að hann gæti breytt nafni sínu í Kristilegur Snillingur Milljarðamæringur Kanye West (e. Christian Genius Billionaire Kanye West). CNN greinir frá.

West hefur þó áður sagst ætla að skipta um nafn, 2009 ætlaði tónlistarmaðurinn að breyta nafni sínu í Martin Louis the King jr. Ekki varð af því en þó er aldrei að vita hvað gerist í ár enda er West til alls líklegur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×