Erlent

Fyrr­verandi borgar­stjóri Gauta­borgar aug­lýsir eftir vinnu sem vöru­bíl­stjóri

Atli Ísleifsson skrifar
Ann-Sofie Hermansson gegndi embætti borgarstjóra Gautaborgar á árunum 2016 til 2018.
Ann-Sofie Hermansson gegndi embætti borgarstjóra Gautaborgar á árunum 2016 til 2018. wikipedia
Ann-Sofie Hermansson, fyrrverandi borgarstjóri Gautaborgar, hefur endurnýjað meiraprófsréttindi sín og auglýsir nú eftir vinnu sem vörubílstjóri. „Hvur fjárinn, ég er nú vaxin upp við þetta. Pabbi minn var bílstjóri og það var hann sem kenndi mér að keyra vörubíl,“ segir Hermansson í samtali við sænska fjölmiðla.

Hermansson á langan feril að baki í stjórnmálum og gegndi þannig embætti borgarstjóra Gautaborgar á árunum 2016 til 2018.

Hún auglýsti eftir nýrri vinnu á samfélagsmiðlum fyrr í vikunni. Færsla Hermansson vakti talsverða athygli, en þar birtir hún mynd af endurnýjuðu ökuskírteini. „Það sem stuðaði fólk mest var að ég birti mynd af kortinu með kennitölu, en það er nú ekki svo hættulegt,“ segir Hermansson við SVT.





Á stjórnmálaferli sínum starfaði Hermansson meðal annars sem aðstoðarkona Monu Sahlin, fyrrverandi ráðherra Jafnaðarmannaflokksins, auk þess að starfa í borgarstjórn Gautaborgar, síðast sem borgarstjóri.

Hún kveðst hafa fengið að prufukeyra nýjan, rafmagnsknúinn sorpbíl Volvo á Götaplatsen á síðasta ári og það hafi verið þá sem hún hafi gert upp hug sinn.

„Það var draumur að fá að prufukeyra hann. Það var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og ég vildi ekkert slíta mig frá stýrinu.“

Hermansson fékk fyrst meiraprófsréttindi árið 1983 og starfaði um tíma sem vörubílstjóri hjá Volvo. „Ég verð nú að vinna fyrir mér og getað borgað leiguna.“

En hver myndi vilja ráða fyrrverandi stjórnmálamann úr framlínunni eins og þig?

„Það er líklega það sem er vandinn, en ég get ekki sagt annað en að ég hef áhuga á að vinna og bíta á jaxlinn!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×