Enski boltinn

„Það er verið að hafa áhorfendur í ensku úrvalsdeildinni að fífli“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sokratis Papastathopoulos talar við Martin Atkinson dómara á meðan VAR skoðar mark Grikkjans. Markið var síðan dæmt af.
Sokratis Papastathopoulos talar við Martin Atkinson dómara á meðan VAR skoðar mark Grikkjans. Markið var síðan dæmt af. Getty/Catherine Ivill
Varsjáin er að þreyta frumraun sína í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og það er óhætt að segja að margir séu orðnir frekar pirraðir á henni.

Ítrekað hefur komið upp sú staða að leikmenn og áhorfendur hafa þurft að bíða í langan tíma á meðan Varsjáin fer yfir einstök atvik. Þetta fer mikið í taugarnar á sumum ekki síst þar sem engar myndir eru sýndar á skjánum.

Mark Chapman, Ian Wright og Peter Crouch ræddu Varsjána í þættinum Match of the Day Two á breska ríkisútvarpinu eins og sjá má hér fyrir neðan.





„Dómarinn lítur ekki á skjáinn í þessu landi en í Þýskalandi þá hafa dómararnir verið að fara fjörutíu eða fimmtíu sinnum til að skoða þetta sjálfir. Hvað á hann að sjá? Ekki nógu mikið að mínu mati. Hann verður að dæma markið gilt því það er ekkert augljóst við þetta,“ sagði Peter Crouch.

Hann var að tala um mark Sokratis Papastathopoulos fyrir Arsenal í gær sem var dæmt af. Í stað þess að vinna leikinn 3-2 sá VAR til þess að Arsenal gerði 2-2 jafntefli við Crystal Palace.

„Áhorfendurnir í stúkunni, sem hafa borgað sig inn á völlinn, hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi. Ég skil þetta bara ekki og enska úrvalsdeildin verður að gera eitthvað í þessu. Það gengur ekki upp að fólk sitji bara og viti ekkert hvað sé í gangi,“ sagði Ian Wright.

BBC skoðaði betur kringumstæðurnar varðandi mark Sokratis Papastathopoulos sem var dæmt af. Það er ekki fyrr en einni mínútu og tuttugu sekúndum eftir að boltinn fer í markið að Varsjáin vaknar af værum blundi og lætur Martin Atkinson dómara vita að hún ætli að skoða markið betur.

Markið er síðan dæmt af einni mínútu og 55 sekúndum eftir að boltinn fer í markið. Á þessum tíma er ekkert útskýrt fyrir áhorfendunum á vellinum og þau vita því ekkert hvað sé verið að skoða.

„Þetta eru tvær mínútur af ringulreið. Þetta kerfi virðir að vettugi undirstöðu leiksins, sem er fólkið sem borgar fyrir að horfa á fótbolta viku eftir viku. Það er verið að hafa áhorfendur í ensku úrvalsdeildinni að fífli,“ sagði Mark Chapman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×