Innlent

Thomas Møller Olsen kominn til Danmerkur

Andri Eysteinsson skrifar
Thomas Møller Olsen í Landsrétti.
Thomas Møller Olsen í Landsrétti. Vísir/Vilhelm
Grænlenski skipverjinn Thomas Møller Olsen, sem dæmdur var í 19 ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur þann 14. janúar 2017, hefur verið fluttur úr landi og til Danmerkur eftir að leyfi fyrir flutningunum fékkst frá dönskum yfirvöldum. Björgvin Jónsson, verjandi Thomasar staðfestir þetta í samtali við fréttastofu RÚV.

Í frétt RÚV segir að Thomas Møller hafi verið fluttur úr landi í almennu farþegaflugi í hand- og fótajárnum og í fylgd lögreglu. Leyfi fyrir flutningunum hafi fengist frá Danmörku 1. október síðastliðinn og var sakborningurinn fluttur úr landi þremur dögum síðar.

Björgvin segir í samtali við RÚV að skjólstæðingur sinn sé nú vistaður í stærsta fangelsi Danmerkur, Vestre í Kaupmannahöfn. Ekki liggur fyrir hvort hann muni afplána refsingu sína alfarið í Vestre.

Í nóvember síðastliðinn var Thomas Møller Olsen dæmdur í 19 ára fangelsi í Landsrétti fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana í janúar 2017. Var niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness því staðfestur. Sótt var um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar en beiðninni var hafnað af Hæstarétti 28. febrúar síðastliðinn og lauk því ferli málsins í íslensku réttarkerfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×