Sport

Myndin með Katrínu Tönju og heimsmeistaranum frumsýnd á kvikmyndahátíð í nóvember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veggspjald myndarinnar með þær Katrínu Tönju Davíðsdóttur, Tiu-Clair Toomey og Brooke Wells.
Veggspjald myndarinnar með þær Katrínu Tönju Davíðsdóttur, Tiu-Clair Toomey og Brooke Wells. Mynd/Instagram

Það vakti talsverða athygli í Crossfit heiminum í sumar þegar tvær af stærstu Crossfit konum heimsins, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Tia-Clair Toomey, hættu hjá Reebok og færðu sig yfir til NOBULL.

Katrín Tanja fór fyrst yfir en Tia-Clair Toomey fylgdi síðan í kjölfarið. Fyrir hjá NOBULL var Brooke Wells sem er líka hjá Ben Bergeron eins og Katrín Tanja. Þessar þrjár eru síðan í aðalhlutverki í nýrri heimildarmynd á vegum NOBULL sem leggur mikið upp úr að kynna vel nýju risastjörnurnar sínar.

Katrín Tanja varð fyrsta konan í sögu CrossFit til að vinna heimsleikana tvö ár í röð en í bæði skiptin lenti Tia-Clair Toomey í öðru sæti. Tia-Clair Toomey vann loksins 2017 og hefur haldið titlinum síðan. Toomey varð fyrsta konan til að vinna þrjú ár í röð fyrr á þessu ári. Þær Katrín og Toomey eru því einu konurnar sem hafa getað kallað sig þá hraustustu í CrossFit heiminum undanfarin fimm ár.

Katrín Tanja lét vita af frumsýningardeginum á Instagram en þessi athyglisverða heimildarmynd um þær Katrínu, Toomey og Wells verður frumsýnd á Fitness Film Festival í Brooklyn í New York 23. nóvember næstkomandi.


Myndin ber nafnið „Who I’ve Always Been“ eða „Sú sem ég hef alltaf verið“ og fjallar um ferðalag þeirra þriggja í CrossFit og hvernig þeim tókst að ná svo langt í íþróttinni sinni.

Í kynningu á myndinni tala þær þrjár um að ferðalag þeirra hafi hafist löngu áður en aðdáendur þeirra fóru að fylgjast með þeim. Það þurfti stífar æfingar og miklar fórnir til að komast í hóp þeirra bestu og fá tækifæri til að keppa á heimsleikunum í fyrsta sinn.

Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn úr myndinni en þar má sjá þær Katrínu, Toomey og Wells í fjallgöngu í Ölpunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.