Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - Stjarnan 1-4 | Stjarnan heldur voninni um Evrópusæti á lífi

Axel Örn Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Már Ragnarsson.
Þorsteinn Már Ragnarsson. vísir/bára
Í dag mættust lið Fylkis og Stjörnunnar í 21.umferð Pepsi-max deild karla. Fyrir leik voru Fylkismenn með 28 stig í 5 sæti deildarinnar og Stjörnumenn með 29 stig í 4.sætinu. Bæði lið áttu veika von á Evrópusæti og var ljóst að liðin voru að spila upp á það.

 

Fyrri hálfleikur var mjög skemmtilegur. Boltinn rúllaði hratt og voru færi á báða bóga alveg hægri vinstri. Stjörnumenn voru aðeins sterkari og voru að halda í boltann en það voru hinsvegar Fylkismenn sem fengu bestu færin í fyrri hálfleiknum og stórundarlegt að Fylkir hafi ekki verið yfir í hálfleik.

 

Staðan var 0-0 í hálfleik en hlutirnir fóru aldeilis að gerast í byrjun seinni hálfleiks. Það dró til tíðinda á 50.mínútu þegar að Valdimar Þór kom með frábæra fyrirgjöf sem Elís Rafn Björnsson setti í sitt eigið net og staðan orðin 1-0 fyrir heimamönnum.Þá tók við yfirburða kafli Stjörnunnar. Mínútu seinna fær Hilmar Árni boltann fyrir utan teig og setur hann í bláhornið og Stefán Logi markvörður Fylkis átti aldrei séns, staðan orðin 1-1

 

Annað mark Stjörnunnar kom á 53.mínútu þegar að Hilmar Árni tekur hornspyrnu og Martin Rauschenberg skallar boltann í netið. 1-2 fyrir Stjörnuna. Á 55.mínútu er brotið á Hilmari Árna inn í vítateig og víti réttilega dæmt. Hilmar Árni fór sjálfur á punktinn og setti Stefán Loga í vitlaust horn og staðan orðin 1-3 fyrir Stjörnuna og þetta gerist allt saman á 5 mínútna kafla.Fjórða og síðasta mark Stjörnunnar kom á 69.mínútu þegar að Elís Rafn keyrir upp kantinn og kemur með baneitraða fyrirgjöf á Sölva Snæ sem þarf einfaldlega að ýta boltanum yfir línuna.

 

Lokatölur í Árbænum 1-4 fyrir Stjörnuna í stórskemmtilegum leik.

 

Af hverju vann Stjarnan?

 

Mikið sterkari í leiknum í dag. Sýndu mjög þroskaða frammistöðu eftir að hafa lent 1-0 undir í leiknum og koma til baka. Heppnir að fá ekki á sig fleiri mörk en áttu alltaf skilið að vinna þennan leik.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Eyjólfur Héðinsson var frábær á miðjunni hjá Stjörnunni í dag, duglegur varnarlega og skapaði mikið sóknarlega. Hilmar Árni átti einnig mjög góðan leik.

 

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Fylkis á mínútum 50-55. Hrikalegt að horfa á þá fá á sig 3 mörk á þessum kafla en spila annars ágætlega varnarlega. Þessar 5 mínútur gerðu út um leikinn.

 

Hvað gerist næst?

Stjarnan spilar gegn ÍBV í lokaumferðinni á laugardaginn í Garðabænum á meðan að Fylkir spilar fyrir norðan gegn KA á laugardaginn sömuleiðis.

Rúnar Páll: Sterkur karakter í okkar að koma til baka

 

„Ég er gríðarlega ánægður. Spiluðum vel og skoruðum fjögur mörk og það dugði í dag,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir 4-1 sigur gegn Fylki í dag.

 

Stjörnumenn voru alltaf við bílstjórasætið en Fylkismenn náðu alveg að skapa sér sóknir og færi til að skora mörk. Um leið og Fylkir skoraði þá keyrðu Stjörnumenn á þá og röðuðu inn 3 mörkum á 5 mínútna kafla.

 

„Mér fannst við betri í fyrri hálfleik en vorum að hleypa þeim í skyndisóknir sem var algjör óþarfi. Svo skora þeir mark sem var gegn gangi leiksins og þá opnuðust bara flóðgáttir.“

 

KR unnu FH 3-2 hérna rétt áðan og það þýðir að Stjörnumenn urðu að vinna og var Rúnar meðvitaður um það hver staðan í þeim leik væri.

 

„Sterkur karakter í okkar að koma til baka, við vissum að KR væri yfir og þurftum að klára leikinn til að eiga einhvern tölfræðilegan séns í að ná þessu sæti.“

 

Stjarnan spilar sinn síðasta leik á þessu ári gegn ÍBV í Garðabænum næsta laugardag og þá ræðst þessi æsispennandi Evrópubarátta.

 

„Við stefnum að sjálfsögðu á Evrópusætið, við þurfum að klára ÍBV heima á laugardaginn næsta og sjá hvort að það sé nóg.“

Helgi Sigurðsson er að kveðja Fylki um næstu helgi.vísir/bára
Helgi: Það koma vonandi einhverjir boltar á loft sem maður vonandi nær að grípa

 

„Við byrjum seinni hálfleikinn vel og komumst yfir en svo er eins og við séum rotaðir og fáum á okkur þrjú mörk á fimm mínútum og þá er þetta orðið ansi erfitt og við þurfum að fara að sækja það og þá opnast svæði fyrir Stjörnuna,“ sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir 1-4 tap gegn Stjörnunni.

 

„Jafn fyrri hálfleikur og mikið af færum en því miður gáfum við þennan leik á 5 mínútna kafla. Ég hélt að liðið myndi nýta þann meðbyr sem það fékk við markið en svo var ekki og okkur var refsað.“

 

Helgi og 4.dómari leiksins lentu upp á kanti í dag og lentu í hörku rifrildum á hliðarlínunni.„Ég ætla ekki að gera neitt stórmál úr því, þið verðið bara að spyrja hann að því. Menn láta út úr sér orð sem þeir eiga ekki að gera.“„Leikmenn segja oft hluti við dómara og hann sagði hluti við mig sem var ekki í lagi, en leikurinn er búinn svo ég ætla ekki að vera að spá í því.“

 

Helgi var nú að stýra Fylkisliðinu í síðasta sinn á heimavelli og voru þetta ekki alveg úrslitin sem hann átti von á.

 

„Já það skiptir engu hvort það sé minn síðasti heimaleikur eða ekki, maður er bara svekktur að tapa fótboltaleikjum.“„Sérstaklega þegar svona sterkt lið eins og Stjarnan er hérna að vera komnir í 1-0 og gefa þeim svo bara leikinn það er bara ekki nógu gott en svona er bara fótboltinn.“

 

Hvað tekur við hjá Helga Sigurðssyni beint eftir tímabil?

 

„Það er bara beint í frí og svo sjáum við til hvað gerist. Það koma vonandi einhverjir boltar á loft sem maður vonandi nær að grípa.“„Þetta er búinn að vera frábær tími hjá Fylki, tók við á erfiðum tímum og planið alltaf að fara beint upp sem gekk eftir og svo erum við búnir að gera liðið að stöðugu úrvalsdeildarliði svo það er jákvætt.“

 

„Þetta er gott lið og þetta er frábært umhverfi og sá sem tekur við þessu er að taka við frábæru búi hérna í Árbænum.“

Hilmar Árni: Við ætlum bara að klára okkar leik

 

„Mér líður mjög vel, góður leikur hjá okkur. Skemmtilegur leikur þar sem boltinn var mikið fram og til baka og mikið af opnunum,“ sagði Hilmar Árni Halldórsson leikmaður Stjörnunnar eftir 4-1 sigur í dag

 

Það var smá gola og rigning í dag og boltinn rúllaði hratt og vel. Tempóið var mikið og má segja að leikurinn hafi verið eins og hálfgerður borðtennisleikur.

 

„Þetta eru geggjaðar aðstæður og grasið frábært og ekki hægt að biðja um meira.“

 

Staðan var 0-0 í hálfleik en um leið og markið kom hjá Fylki þá kviknaði á Stjörnunni. Aðspurður að því hvort það hafi verið einhverjar áherslubreytingar í hálfleiknum sagði hann.

 

„Við töluðum um að það væri margt að ganga upp hjá okkur og ætluðum að gera það áfram en við töluðum um að við þyrftum að vera skipulagðir til baka og passa þessar skyndisóknir hjá þeim.“

 

Stjarnan á ennþá von á Evrópusæti en þeir þurfa að klára ÍBV á laugardaginn og treysta því að FH misstigi sig gegn Grindavík í síðasta leiknum.

 

„Við ætlum bara að klára okkar leik og sjá hvað setur þegar leik lýkur á laugardaginn.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.