Erlent

Um 500 bjargað úr „pyndingar­húsi“ í Nígeríu

Atli Ísleifsson skrifar
Margir voru í hlekkjum þegar lögreglu bar að garði.
Margir voru í hlekkjum þegar lögreglu bar að garði. Lögregla í Nígeríu
Lögregla í Nígeríu hefur greint frá því að tekist hafi að bjarga um fimm hundruð manns úr byggingu sem hýsti íslamskan skóla þar sem mönnunum var haldið nauðugum og þar sem þeir þurftu að sæta pyndingum.

BBC segir frá því að byggingin hafi verið í borginni Kaduna í norðurhluta landsins. Um hafi verið að ræða karlmenn og unga drengi. Hafi margir þeirra verið í hlekkjum þegar lögregla bar að garði. Þeir yngstu eru sagðir hafa verið fimm ára að aldri.

Lögregla réðst til atlögu eftir að nokkrar ábendingar höfðu borist um grunsamlegt athæfi í byggingunni. Lýsti lögreglustjórinn Ali Janga sem „pyndingshúsi“ og að mönnunum hafi verið haldið sem þrælum.

Átta manns eru í haldi lögreglu vegna málsins.Lögregla í Nígeríu

Átta í haldi lögreglu

Ekki var einungis um Nígeríumenn að ræða sem haldið var nauðugum. Fórnarlömbin segjast hafa verið misnotaðir kynferðislega, búið við vannæringu og meinað að yfirgefa bygginguna.

Sumir þeirra yngstu sögðu að ættingjar þeirra hafi farið með þá í bygginguna í þeirri trú að um íslamskan skóla væri ræða.

Átta manns eru í haldi lögreglu vegna málsins.

Íslamskir skólar njóta vinsælda í norðurhluta Nígeríu en ásakanir hafa verið tíðar um að vafasama starfsemi í skólanum. Hefur til að mynda verið talað um að börn séu send út á götu til að betla fyrir skólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×