Erlent

Líkur á að ósongatið verði það minnsta í áratugi í ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Bláir liturinn sýnir þynningu ósonlagsins yfir suðurskautinu.
Bláir liturinn sýnir þynningu ósonlagsins yfir suðurskautinu. CAMS

Gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu er nú helmingi minna en það er vanalega á þessum árstíma. Útlit er því fyrir að gatið í ár verði það minnsta í þrjá áratugi, að sögn evrópskra vísindamanna.

Ósonlagið ver jörðina fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar. Menn röskuðu ósonhringrásinni þegar þeir byrjuðu að losa svonefnd klórflúrkolefni út í andrúmsloftið sem eyða ósoni í háloftunum. Þau efni var meðal annars að finna í ísskápum og úðabrúsum. Losun efnanna var bönnuð með Montreal-sáttmálanum árið 1987.

Klórflúorkolefni sem þegar hafa verið losuð eru þó enn í lofthjúpi jarðarinnar og valda því að gat myndast árlega í ósonlagið. Búist er við því að ósonlagið nái aftur fyrr styrk í kringum árið 2060.

Vísindamenn við Kópernikusarloftathuganasþjónustu Evrópusambandsins (CAMS) segja að gatið sem opnast vanalega yfir Suðurskautslandinu sé ekki eins stórt og undanfarin ár. Gatið er yfirleitt stærst yfir vorið á suðurhveli, frá september og fram í október. Þá getur styrkur ósons dregist saman um allt að 60%.

Gatið nær nú yfir um fimm milljón ferkílómetra en á sama tíma í fyrra var það yfir tuttugu milljón ferkílómetrar, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Gatið var um tíu milljón ferkílómetrar árið 2017. Vísindamennirnir segja að ósontapið hafi hafist fyrr en vanalega á þessu ári. Dregið hafi úr tapinu þegar heiðhvolfið hlýnaði skyndilega um 20-30 gráður í byrjun september.

Richard Engelen, varaforstjóri CAMS, segir að rannsaka þurfi betur hvað olli því að gatið er ekki stærra en það er.

„Þetta tengist ekki beint Montreal-sáttmálanum þar sem við reyndum að draga úr klóri og bróm í andrúmsloftinu því það er enn til staðar. Þetta tengist miklu frekar atburðum á hreyfingu. Fólk spyr augljóslega spurninga sem tengjast loftslagsbreytingum en við höfum einfaldlega ekki svörin á þessu stigi,“ segir hann.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.