Innlent

Grunaður korta­þjófur hand­tekinn á leið til Amsterdam og settur í varð­hald

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alls eru þrír menn grunaðir í málinu.
Alls eru þrír menn grunaðir í málinu. Vísir/Vilhelm/Getty/Kenishirotie
Rúmenskur maður sem handtekinn var fyrr í mánuðinum ásamt tveimur samlöndum sínum, grunaður um greiðslukortaþjófnað hér á landi í september í fyrra, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. október næstkomandi. Hefur Landsréttur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis.

Vísir greindi fyrst frá handtöku mannanna þann 8. september, tveimur dögum eftir að þeir voru handteknir, grunaðir um kortaþjófnaðinn.

Kom þá fram að talið væri að mennirnir hefðu stolið íslenskum kortum með kerfisbundnum hætti og tekið út háar fjárhæðir úr hraðbönkum hérlendis með kortunum.

Voru þeir handteknir þegar þeir komu aftur til landsins og talið mögulegt að þeir hefðu snúið aftur í sömu erindagjörðum.

Mönnunum þremur var sleppt daginn eftir að þeir voru handteknir en gert að mæta á lögreglustöð og tilkynna sig þrisvar í viku.

Maðurinn sem nú hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald reyndi hins vegar að komast úr landi fjórum dögum eftir að hann var handtekinn, eða þann 10. september.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að þann dag hafi lögregla fengið tilkynningu um að maðurinn væri á leið úr landi með flugvél Icelandair til Amsterdam. Hafi maðurinn verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli í þann mund sem hann var að gera sig líklegan til að fara um borð í vélina.

Taldi lögreglan að með hliðsjón af því að maðurinn reyndi að komast úr landi væri nauðsynlegt að láta hann sæta gæsluvarðhaldi á meðan málið væri til meðferðar og tryggja þannig nærveru mannsins svo hægt væri að ljúka málum hans.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn hafi játað þau brot sem hann er grunaður um en þjófnaðurinn nemur alls um 1,2 milljónum króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×