Erlent

Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sakaði innanríkisráðherra landsins um ábyrgðarleysi þegar hann tilkynnti um afsögn sína.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sakaði innanríkisráðherra landsins um ábyrgðarleysi þegar hann tilkynnti um afsögn sína. Fréttablaðið/EPA
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hefur sagt af sér. Hann tilkynnti ítalska þinginu um ákvörðun sína í dag.

Í ræðu sinni sagði hann að Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins og innanríkisráðherra landsins, hefði sýnt af sér ábyrgðarleysi.

Salvini tilkynnti í upphafi mánaðarins að hann hygðist slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Fimmstjörnuhreyfinguna eftir aðeins eitt ár við stjórnvölinn.

Hann sagði að ástæðan væri ósætti vegna háhraðalínu sem verið er að vinna að á milli Frakklands og Ítalíu.



Conte hefur áður sagt að þessi ákvörðun hefði komið líkt og þruma af heiðum himni og að hún hefði verið tekin að óathuguðu máli.

Í ræðu sem forsætisráðherrann hélt í þinginu í morgun sakaði hann Salvini um að hafa fellt ríkisstjórnina í eigin þágu.

Samstarfsflokkur Salvinis, Fimmstjörnuhreyfingin er með fleiri þingsæti en Norðurbandalagið hefur að undanförnu mælst með meira fylgi í könnunum. Conte telur því að tímasetningin boðaðra stjórnarslita sé einkar grunsamleg.

Áður en flokkarnir tveir skrifuðu undir stjórnarsáttmála fyrir um ári síðan ríkti margra mánaða stjórnmálakreppa í landinu.

Sergio Mattarella, forseti landsins, þarf að ákveða hver næstu skref verða.


Tengdar fréttir

Engin sátt um kosningar

Öldungadeild ítalska þingsins komst ekki að niðurstöðu þegar þingmenn ræddu í gær um hvort tillaga Matteos Salvini, leiðtoga þjóðernisflokksins Bandalagsins og innanríkisráðherra, um vantraust á ríkisstjórnina yrði tekin til umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×