Sport

Þrettán ára Evrópumeistari setti nýtt met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oleksii Sereda býr sig undir það að stökkva á HM.
Oleksii Sereda býr sig undir það að stökkva á HM. Getty/Maddie Meyer
Úkraínumaðurinn Oleksii Sereda varð í gær Evrópumeistari í dýfingum en um leið sló hann ellefu ára gamalt met Bretans Tom Daley.

Oleksii Sereda er nefnilega aðeins 13 ára gamall og sjö mánaða en hann vann Evrópumeistaratitilinn af tíu metra pallinum á Evrópumótinu sem fór fram á heimavelli hans eða Kiev.

„Litli stóri Sereda,“ var meðal fyrirsögnin hjá Rai á Ítalíu.

Hann bætti gamla met Tom Daley um þrjá mánuði. Tom Daley var þrettán ára og tíu mánaða þegar hann varð Evrópumeistari 2008.





„Ég var svolítið stressaður en ég er ánægður með að hafa unnið,“ sagði Oleksii Sereda við breska ríkisútvarpið eftir keppnina.

Í öðru sæti var Frakkinn Benjamin Auffret. Hann er 24 ára eða ellefu árum eldri en Evrópumeistarinn. Þetta var líka annað Evrópumótið í röð sem Benjamin Auffret verður að sætta sig við silfrið.  

Oleksii Sereda fékk 488,85 stig fyrir sýna dýfingar eða fjórtán stigum meira en næsti maður.

Þetta er búið að vera magnaður mánuður hjá stráknum en hann rétt missti af verðlaunapalli á heimsmeistaramótinu fyrir þremur vikum þegar hann varð að sætta sig við fjórða sætið.





Dýfingamenn verða að vera orðnir fjórtán ára gamlir til að geta keppt á Ólympíuleikunum og Oleksii Sereda verður því löglegur á ÓL í Tókýó á næsta ári. Hann verður fjórtán ára í desember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×