Sport

Kolbeinn í viðtali í virtasta boxtímariti heims: „Vonandi borgar öll vinnan sig á endanum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbeinn hefur unnið alla ellefu bardaga sína á atvinnumannaferlinum.
Kolbeinn hefur unnið alla ellefu bardaga sína á atvinnumannaferlinum. vísir/valli

Hnefaleikakappinn Kolbeinn Kristinsson er í löngu viðtali í boxtímaritinu virta, The Ring.

Í viðtalinu fer Kolbeinn um víðan völl. Hann ræðir m.a. um hvernig það er að vera boxari í landi þar sem atvinnuhnefaleikar eru bannaðir.

„Ég er einhyrningur,“ svarar Kolbeinn hlæjandi aðspurður af hverju svona fáir boxarar séu á Íslandi.

„Ég segist vera frá Íslandi og þeir halda að það sé Eistland. Þeir geta ekki ímyndað sér að hnefaleikar séu stundaðir á Íslandi.“

Síðasti sigur ekki skráður

Kolbeinn fer einnig yfir upphafið á boxferlinum og hversu miklar fórnir hann hefur þurft að færa til að stunda íþrótt sína. Hann hefur t.a.m. þurft að borga mikið úr eigin vasa, bara fyrir það eitt að geta keppt.

„Við höfum þurft að grátbiðja fólk um að fá að vera með á bardagakvöldum,“ segir Kolbeinn sem hefur þurft að borga fyrir andstæðing án þess að hafa sjálfur neitt upp úr krafsinu.

Kolbeinn hefur unnið alla ellefu bardaga sína á atvinnumannaferlinum. Síðast bar hann sigurorð af Gyorgy Kutasi í Ungverjalandi. Þótt myndband sé til af bardaganum hefur Kolbeinn ekki fengið sigurinn skráðan af BoxRec og ekki fengið svar af hverju svo sé.

Átt ekki að stjórna því hvað annað fólk gerir

Atvinnuhnefaleikar hafa verið bannaðir hér á landi síðan 1956. Kolbeinn vonast til að það breytist í framtíðinni.

„Þú átt ekki að stjórna því hvað annað fólk gerir. Þú hefur frjálsan vilja. Þú mátt reykja, drekka áfengi, þú getur hoppað fram af húsþaki. Það er ekki bannað. En þú mátt ekki stunda íþrótt,“ segir Kolbeinn.

Hann vonast til að öll vinnan skili sér á endanum. 

„Ég er mjög metnaðarfullur og legg mig allan fram og fórna miklu. Ég trúi því að á endanum borgi það sig,“ segir Kolbeinn.

Viðtalið í heild sinni má lesa með því að smella hér.

Box

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.